Hjukrun.is-print-version

Umsögn um tillögu til þingsályktunar

RSSfréttir
7. desember2011

 

 

Reykjavík 7. desember 2011

 

 

Nefndasviðs Alþingis

Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

 

 

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun um tóbaksvarnir

 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar beiðni um umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun um tóbaksvarnir.

 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lýsir yfir stuðningi við það að Alþingi feli velferðarráðherra að vinna að 10 ára aðgerðaráætlun um tóbaksvarnir þar sem meginmarkmið aðgerðaráætlunarinnar er að koma í veg fyrir að ungmenni ánetjist tóbaki og minnki þannig nýliðun reykingamanna. Fíh telur heillavænlegra að byggja slíka áætlun á grundvelli forvarna í stað þess að takmarka sölu tóbaks við apótek, gegn framvísun tóbaksseðils frá heilbrigðisstarfsmanni. Það er í samræmi við hugmyndafræði og stefnu Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum en þar er lögð áhersla á heilsueflingu, forvarnir og  sjálfsábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu og lífsstíl.

 

Tóbaksnotkun er alvarlegt heilsufarsvandamál hér á landi og því þarf að leita raunhæfra leiða til að koma í veg fyrir að ungmenni ánetjist tóbaki. Einnig er mikilvægt að auðvelda fólki að hætta að reykja með markvissri meðferð, upplýsingum og fræðslu. Félagið bendir heilbrigðisyfirvöldum á að í stað boða og banna beiti yfirvöld sér fyrir því að reykingafólk fái faglega og markvissa meðferð og  stuðning til reykleysis með því m.a. að nýta sérþekkingu hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Heilbrigðisyfirvöld þurfa að styðja við það starf með nauðsynlegum fjárveitingum.

 

Fíh lýsir sig tilbúin til að leggja sitt að mörkum við gerð aðgerðaráætlunar um tóbaksvarnir.

 

 

Með kveðju.

F.h. Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

 

 

 

Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður

Félag íslenskra hjúkrunarfæðinga

 

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála