Hjukrun.is-print-version

Umsögn um frumvarp til laga

RSSfréttir
8. desember2011

 

                                               

Reykjavík 8. desember 2011

 

 

Nefndasviðs Alþingis

Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

 

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, (greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði).

 

 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar beiðni um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

 

Með vísan í fyrirhugaðar breytingar á lyfjalögum er varða heimild hjúkrunarfræðinga til að ávísa hormónatengdum getnaðarvarnalyfjum og umræðu í tengslum við endurskoðun á lyfjastefnu og nýja velferðarstefnu Velferðarráðuneytis, vill Fíh gera eftirfarandi athugasemdir á ofangreindu frumvarpi til laga.

 

II. KAFLI

Breytingar á lyfjalögum nr. 93/1994, með síðari breytingum

 

3. gr.

27. gr. laganna orðist svo með breytingatillögu Fíh.

 

1. málsgrein

Landlæknir starfrækir lyfjagagnagrunn um lyfjaávísanir og afgreiðslu lyfja í þeim tilgangi að hafa almennt eftirlit með ávísunum lækna og hjúkrunarfræðinga á lyf og vegna eftirlits með ávana- og fíknilyfjum.

 

2. málsgrein

Persónuauðkenni sjúklinga, lækna og hjúkrunarfræðinga skulu vera sérstaklega dulkóðuð í lyfjagagnagrunninum. Dulkóðuðum persónuauðkennum sem eldri eru en 30 ára skal eytt úr honum. Landlæknir ber ábyrgð á dulkóðun persónuauðkennanna og varðveitir einn lykil að henni, bæði til dulkóðunar og afkóðunar.

 

 

 

 

6. málsgrein

Læknar og hjúkrunarfræðingar sem koma að meðferð sjúklings og þurfa á lyfjasögu hans að halda vegna meðferðarinnar skulu hafa aðgang að lyfjagagnagrunninum. Um trúnaðar- og þagnarskyldu lækna og hjúkrunarfræðinga um persónulegar upplýsingar sem þeir komast að í starfi sínu, þ.m.t. lyfjaupplýsingar, gilda ákvæði læknalaga, ákvæði laga um réttindi sjúklinga og eftir atvikum önnur lög sem við eiga.

 

 

Rök fyrir ofangreindum breytingatillögum:

 

1. og 2. málsgrein

Verði fyrirhugaðar breytingar á lyfjalögum hvað varðar heimild hjúkrunarfræðinga til að ávísa getnaðarvarnalyfjum samþykktar, þarf að hafa eftirlit með öllum þeim aðilum sem hafa heimild til að ávísa lyfjum þ.m.t. hjúkrunarfræðingum. Þá þarf og að dulkóða persónuauðkenni hjúkrunarfræðinga líkt og sjúklinga og lækna.

 

6. málsgrein

Fíh telur nauðsynlegt að hjúkrunarfræðingar hafi aðgang að lyfjasögu sjúklings í lyfjagagnagrunni þar sem þeir hafa sífellt stærra hlutverki að gegna varðandi aðgengi sjúklinga að lyfjum, öryggi og gæði lyfja og lyfjagjafa, og skynsamlegri og hagkvæmri notkun lyfja. Hjúkrunarfræðingar telja að með því að þeir fái leyfi til að ávísa ákveðnum lyfjum og endurnýja lyfseðla hjá langveikum megi bæta aðgengi að lyfjum, ekki hvað síst í dreifbýli, og draga úr kostnaði. Lyfjagjafir eru stór hluti af störfum hjúkrunarfræðinga og þeirra er að fylgjast með verkan og aukaverkun þeirra lyfja sem þeir gefa. Hjúkrunarfræðingar geta gegnt lykilhlutverki í að fræða sjúklinga um lyf og lyfjanotkun, hafa áhrif á  meðferðarheldni og kostnaðarvitund sjúklinga, hafa eftirlit með fjöllyfjanotkun sérstaklega á hjúkrunarheimilum og í heimahjúkrun, og við skráningu aukaverkana lyfja. Til að svo megi verða þurfa hjúkrunarfræðingar aðgang að sjúkra/lyfjasögu sjúklinga sem þær sinna.

 

 

Með kveðju.

F.h. Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

 

 

 

 

Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður

Félag íslenskra hjúkrunarfæðinga

 

 

 

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála