Reykjavík 12. apríl 2012
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8 - 10
150 Reykjavík
Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um beina þátttöku sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana í skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu í heimabyggð, 120. mál.
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreinda þingsályktunartillögu. Stjórnin veitti umsögn, dags. 6. desember 2010, um áður framlagða tillögu til þingsályktunar. Í þeirri umsögn lýsti stjórn Fíh yfir stuðningi við tillöguna.
Stjórn Fíh styður sem fyrr að heimamenn á hverjum stað og starfsmenn geti haft áhrif á stefnu heilbrigðisstofnana, forgangsröðun verkefna og rekstur. Ráðgefandi stjórn getur gegnt slíku hlutverki. Stjórn Fíh vill engu að síður benda á þá leið sem þegar er kveðið á um í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, 20. gr. en þar segir m.a. um Landspítala:
Ráðherra skal skipa níu manns og jafnmarga til vara í ráðgjafarnefnd Landspítala til fjögurra ára í senn. Nefndin skal vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans. Skal nefndin m.a. fjalla um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir spítalans og langtímastefnu hans. Nefndin skal m.a. skipuð fulltrúum notenda þjónustu spítalans. Formaður skal í samráði við forstjóra boða til upplýsinga- og samráðsfunda eftir því sem þurfa þykir og eigi sjaldnar en tvisvar á ári.
Stjórn Fíh telur heppilegt að slíkar ráðgjafanefndir verði starfandi að minnsta kosti við öll umdæmissjúkrahús landsins.
Virðingarfyllst,
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
________________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður