Ályktun aðalfundar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um áhrif og hlutverk hjúkrunarfræðinga í heilbrigðiskerfinu á Íslandi
Hjúkrunarfræðingar krefjast þess að skipulag heilbrigðisþjónustu verði endurskoðað og bjóða fram nýjar aðferðir við umbætur á öllum stigum heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Nýta verður þá fjármuni sem veittir eru í heilbrigðiskerfið þannig að þjónustan verði skilvirk, örugg, rétt tímasett og sjúklingamiðuð með sem minnstum tilkostnaði fyrir samfélagið, sjúklinga og aðstandendur þeirra. Þessu er að mörgu leyti ábótavant vegna skorts á samvinnu heilbrigðisstétta, samþættingu þjónustu og ófullkominnar rafrænnar sjúkraskrár. Oft skortir samfellu í þjónustu við sjúklinga þar sem upplýsingar um greiningu, lyf og meðferð skila sér ekki milli stofnana og sérfræðinga. Samþætting þjónustu og samvinna heilbrigðisstétta á því að vera algjört forgangsatriði til að veita sjúklingum rétta þjónustu á réttum stað, draga úr tvíverknaði og skila þjóðhagslegum ávinningi í meðförum á almannafé.
Hjúkrunarfræðingar hafa menntun og færni til að stýra margvíslegri heilbrigðisþjónustu við sjúklingahópa á Íslandi hvort sem um er að ræða grunnþjónustu eða sérhæfða þjónustu. Á Íslandi eru nú 65 hjúkrunarfræðingar sem hafa viðurkennt sérfræðileyfi í hjúkrun á mörgum sérsviðum heilbrigðisþjónustunnar. Rannsóknir sýna að sérhæfð þjónusta, þar sem hjúkrunarfræðingar eru samhæfingaraðilar fyrir sjúklingahópa, dregur verulega úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Hjúkrunarfræðingar krefjast þess að þeir séu hafðir með í ráðum við stjórn heilbrigðismála.
Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, haldinn 24. maí 2012, gerir kröfu um að íslensk heilbrigðisyfirvöld nýti betur auðlindir og fjármagn sem veitt er til heilbrigðisþjónustu og að þar gegni hjúkrunarfræðingar lykilhlutverki.