Reykjavík 28. ágúst 2012
Velferðarráðuneytið
Bt. Ingu J. Arnardóttur, sérfræðings
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík
Efni: Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um lyfjastefnu Velferðarráðuneytis, júní 2012 (VEL11110018).
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma að gerð lyfjastefnu Velferðarráðuneytis til 2020 og að veita umsögn um drög að sömu stefnu.
Fíh gengur út frá því að það sé vilji velferðarráðuneytis að heimila hjúkrunarfræðingum að ávísa ákveðnum lyfjum sbr. frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu (ávísanaheimild) sem lagt var fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011-2012. Gert er ráð fyrir möguleikum á útvíkkun heimildarinnar í framtíðinni. Fíh gerir því textabreytingar á nokkrum stöðum í drögunum í samræmi við það.
Fíh vill einnig leggja ríka áherslu á að hjúkrunarfræðingar verði virkir þátttakendur í öllum þeim starfshópum sem koma að endurskoðun, gerð leiðbeininga eða gæðavísa og öðru því er viðkemur breytingum er stuðla að aðgengi að lyfjum og meðferð, hagkvæmari og skilvirkari umsýslu lyfja og kennslu, fræðslu og þróun sem auka öryggi sjúklinga og auka gæði þjónustu bæði innan stofnana og utan.
Fíh gerir eftirfarandi athugasemdir og tillögur við einstaka kafla:
Ásættanlegt aðgengi að nauðsynlegum lyfjum og/eða meðferð
Starfsmarkmið 3: Stuðla að jöfnu aðgengi allra þjóðfélagshópa að lyfjum.
Aðgerð - viðbót
Sett verði lög um heimild hjúkrunarfræðinga til að ávísa ákveðnum lyfjum og endurnýja lyfseðla fyrir sjúklinga með langvinna sjúkdóma.
Starfshópur verði settur á fót sem skilgreinir hvaða þekkingu og færni hjúkrunarfræðingar þurfa að hafa til að fá leyfi til að ávísa lyfjum.
Rök:
Með því að veita hjúkrunarfræðingum leyfi til að ávísa getnaðarvarnarlyfjum og síðar meir fleiri lyfjum má auka aðgengi landsmanna að lyfjum og bæta þjónustu við sjúklinga. Með því að útvíkka heimildina þannig að hún taki til endurnýjunar lyfseðla fyrir sjúklinga með langvinna sjúkdóma, má bæta enn frekar aðgengi og þjónustu við sjúklinga, auka öryggi í meðferð þeirra og draga úr kostnaði við t.d. læknisþjónustu, lyfjagjafir og meðferð, sérstaklega í dreifbýli.
Hjúkrunarfræðingar eru tilbúnir til að koma að setningu laga varðandi lyfjaávísanir og menntun og þjálfun þeirra hjúkrunarfræðinga sem fengju leyfi til slíks.
Yfir 30 ára reynsla er af því að hjúkrunarfræðingar ávísi lyfjum m.a. í USA, UK, Ástralíu, Nýja Sjáland, Svíþjóð og á Írlandi. Þar hefur sýnt sig að sjúklingar meta mikils að hjúkrunarfræðingar geti ávísað lyfjum vegna þess m.a. að þjónustan er hraðari og samfelldari, fræðsla og samtal við hjúkrunarfræðinga áhrifaríkara og þeir fá nákvæmari upplýsingar um eigið ástand, meðferðina og lyfin sem þeir eru að fá.
Niðurstöður rannsókna um lyfjaávísanir hjúkrunarfræðinga hafa m.a sýnt eftirfarandi:
- Örugg og viðeigandi lyfjaávísun.
- Ánægja meðal sjúklinga og notenda þjónustunnar.
- Aukið hagræði, þægindi og betra aðgengi sjúklinga að þjónustu.
- Sjúklingar fá góða upplýsingagjöf.
- Sparar bæði tíma og peninga fyrir þá sem þjónustuna veita.
- Meðferðarheldni sjúklinga er há.
- Hjúkrunarfræðingar taka nákvæma lyfjasögu áður en þeir ákveða meðferð og eru líklegri en aðrar stéttir til að skrifa upp á aðra meðferð en lyf.
- Viðeigandi kínísk ákvarðanataka.
Hagkvæmni og skilvirkni í allri umsýslu lyfja
Hjúkrunarfræðingar starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Þeir gefa lyf og fylgjast með verkunum og aukaverkunum þeirra, hafa yfirsýn yfir lyfjanotkun sjúklinga sinna, bæði innan stofnana og utan, og bera ábyrgð á að rétt lyf séu gefin réttum sjúklingum á réttum tíma.
Þeir eru í kjör aðstöðu til að fylgjast með og hafa eftirlit með fjöllyfjanotkun t.d. á hjúkrunarheimilum. Því er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar komi að starfsmarkmiðum 1, 2 og 3 sem þátttakendur í starfshópum til að:
- bæta skilvirkni, meðal annars með skipulagsbreytingum
- skilgreina gerð og notkun verkferla og gæðavísa innan heilbrigðisstofnana
- stuðla að skynsamlegri ávísun og notkun lyfja á hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum
- undirbúa hugsanlega notkun samheitalyfja í lyfjafyrirmælum.
Starfsmarkmið 2: Stuðla að skynsamlegri ávísun/notkun lyfja (SÁN).
Aðgerð
Læknar og hjúkrunarfræðingar fái með aðgengilegum hætti upplýsingar um verð og greiðsluþátttöku lyfja (hægstæðasta val) í gegnum sjúkraskrárkerfi þegar þeir ávísa lyfjum.
Gert er ráð fyrir ákveðinni ávísanaheimild hjúkrunarfræðinga og því er hjúkrunarfræðingum bætt inn í textann hér að ofan.
Öryggi og heilsa sjúklinga og gæði þjónustu
Starfsmarkmið 1: Hefja innleiðingu lyfjafræðilegrar umsjár og skilgreina þátttöku lyfjafræðinga í forvörnum og heilsueflingu.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga áttar sig ekki á hvaða nýju hugmyndir hér eru á ferðinni varðandi þátttöku lyfjafræðinga í forvörnum og heilsueflingu. Félagið telur að leggja beri áherslu á að styðja og efla starf þeirra heilbrigðisstétta sem nú þegar sinna þessum þáttum heilbrigðisþjónustunnar.
Forvarnir og almenn heilsuvernd hefur, um áratuga skeið, verið eitt helsta verkefni hjúkrunarfræðinga innan heilsugæslunnar. Má þar nefna mæðravernd, ungbarnavernd, skólahjúkrun og heimahjúkrun. Lögð er sérstök áhersla á 1. og 2. stigs forvarnir til að draga úr lyfjanotkun bæði innan heilsugæslunnar, í skólahjúkrun og víðar. Hjúkrunarfræðingar eru því í kjör aðstöðu, innan stofnana og utan, til að vinna að forvörnum sem geta dregið úr lyfjanotkun. Þeir eru einnig í lykilaðstöðu til að fræða sjúklinga sína um lyf og áhrif lyfja, og þannig auka meðferðarheldni og kostnaðarvitund þeirra.
Í drögum að reglugerð um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi (sem nú eru til umsagnar hjá Fíh) er í kafla IV Réttindi og skyldur, 8. gr. fjallað um faglegar kröfur og ábyrgð. Þar er sérstaklega tekið fram að hjúkrunarfræðingar beri ábyrgð á forvörnum. Slíka áherslu á forvarnir er hvorki að finna í drögum að reglugerð um lyfjafræðinga né lækna.
Starfsmarkmið 1: Hefja innleiðingu lyfjafræðilegrar umsjár og markvissa innleiðingu á forvörnum og heilsueflingu til að draga úr notkun lyfja, sérstaklega er varðar lífsstílssjúkdóma s.s. offitu, hjarta- og æðasjúkdóma og streitu.
Aðgerð
Auka notkun hreyfiseðla
Auka vægi starfa hjúkrunarfræðinga að forvörnum og fræðslu í grunn- og framhaldsskólum.
Starfsmarkmið 2. Gerðar verði tillögur til að draga úr ofnotkun /misnotkun lyfja.
Tryggja þarf virka aðkomu hjúkrunarfræðinga að þeim starfhópum sem skipaðir verða til verksins, sérstaklega hvað varðar fjöllyfjanotkun á hjúkrunarheimilum og meðal þeirra sem njóta heimahjúkrunar.
Starfsmarkmið 3: Stuðla að auknum gæðum í lyfjaumsýslu.
Til að stuðla að öryggi sjúklinga þarf að nýta reynslu hjúkrunarfræðinga og þekkingu varðandi umsýslu lyfja og lyfjagjafir. Huga þarf sérstaklega að því að
- lyfjaheiti og styrkleikar komi skýrt og greinilega fram á umbúðum lyfja,
- tiltekt lyfja og lyfjagjafir verði sem öruggastar með því m.a að fagfólk sjái um tiltekt lyfja,
- sköpuð sé viðeigandi aðstaða til lyfjatiltekta og lyfjagjafa,
- áhrif og aukaverkanir lyfja verði metin og skráð,
- lyfjafyrirmæli séu skýr og enduskoðuð eftir þörfum
- hjúkrunarfræðingar komi meira að fræðslu og eftirliti með lyfjagjöfum til að auka meðferðarheldni.
Kennsla, fræðsla, rannsóknir, upplýsingar, þróun
Starfsmarkmið 1: Tryggja aðgengi að heildstæðum og réttum upplýsingum.
Aðgerð
Læknar og hjúkrunarfræðingar fái aðgang að persónulegri miðlægri lyfjasögu og að lyfseðlagátt og að EL geri áætlun um aðgang annarra heilbrigðisstétta.
Gert er ráð fyrir ákveðinni ávísanaheimild hjúkrunarfræðinga og því er hjúkrunarfræðingum bætt inn í textann hér að ofan.
Með góðri kveðju,
_________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga