Reykjavík 24. September 2012
Ásthildur Knútsdóttir sérfræðingur
Skrifstofa gæða og forvarna
Velferðarráðuneytið
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
IS-150 Reykjavík
Efni: Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um velferðarstefnu Velferðarráðuneytis, september 2012 (VEL33501).
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma að gerð velferðarstefnu Velferðarráðuneytis til 2020 og að veita umsögn um drög að heilbrigðisáætlun til ársins 2020.
Fíh fagnar gerð heilstæðrar velferðarstefnu og heilbrigðisáætlunar til ársins 2020 þar sem leitast er við að móta framtíðarsýn í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Hins vegar telur Fíh helstu meinbaugi stefnunnar þá að hún er á stundum ekki nógu skýr eða afmörkuð til að vera það leiðarljós sem til þarf. Í drögunum er víða að finna almennt orðuð markmið, mælikvarða og aðgerðir sem ekki eru nógu skýr til að vinna eftir. Sem dæmi má nefna kaflann um heilsugæsluna, skilgreiningar vantar í kaflann um sjúkrahús og sérfræðiþjónustu, mannaflakaflinn er óskýr og fleira mætti telja.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gerir eftirfarandi athugasemdir og tillögur við einstaka kafla:
A. Jöfnuður í heilsu og lífsgæðum
A.1 Aðgengi að þjónustu
Í mælikvarða 1 segir að skilgreina skuli hámarksgjaldtöku einstaklinga á ári í heilbrigðisþjónustu fyrir árslok 2014 og 1. Aðgerð kveður á um að endurskoða og samþætta greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu.
Hér þarf að skýra stefnu ráðuneytisins betur með því að segja til um hver sé tilgangur endurskoðunarinnar eða til hvers hún eigi að leiða þannig að hægt sé að vinna hana samkvæmt því. Ef það er stefna ráðuneytisins að lækka eða draga úr greiðsluþátttöku
sjúklinga til að jafna aðgengi og möguleika þeirra sem minna mega sín þarf það að koma skýrt fram. Kveða þarf sterkara að orði þar sem í núverandi greiðsluþátttökukerfi er ekkert samræmi, hvorki milli stofnana né innan stofnananna sjálfra og gjaldskráin fyrir þjónustuna er víða orðin allt of há fyrir venjulegt launafólk. Nær væri að skilgreina betur hvaða heilbrigðisþjónustu sjúkratryggingar taki þátt í að greiða og þá á hvaða forsendum. Sama gildir um þá þjónustu sem sjúkratryggingar ákveða að skuli ekki njóta niðurgreiðslu.
2. aðgerð: Viðbót
Framkvæmdaraðilar: Bæta við FSA og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eða
Samstarfsaðilar: FSA, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnanir
A.4 Lífsgæði fólks með sjúkdóma
Þennan kafla þarf að endurskoða og afmarka við markið hans sem er að auka vellíðan fólks með sjúkdóma. Forvarnaraðgerðir sem settar eru fram í kaflanum eiga betur heima í kafla B þar sem fjallað er um forvarnir. Þar má nefna 5. Aðgerð um undirbúning að skimun fyrir ristilkrabbameini sem fellur undir forvörn en ekki lífsgæði fólks með sjúkdóma. Fella þarf út úr kaflanum þá þætti sem falla að forvörnum og bæta inn í staðinn fleiri sértækum aðgerðum til að bæta lífsgæði fólks með sjúkdóma. Ef markmiðið er að 80% fólks með sjúkdóma meti líðan sína góða skýtur skökku við að útiloka aðra sjúkdóma s.s. taugasjúkdóma, gigtarsjúkdóma, nýrnasjúkdóma, fíknisjúkdóma o.fl. sem í dag valda ýmist ótímabærum dauðsföllum og/eða skerða lífsgæði mikið. Með þetta að leiðarljósi eru eftirfarandi tillögur Fíh um breytingar settar fram.
1.aðgerð: Breyting
Að auka þekkingu fólks með sjúkdóma á áhættuþáttum, einkennum, meðferðarmöguleikum og eigin ábyrgð í meðhöndlun sjúkdóma. Aðgerðin eins og hún stendur í stefnunni á betur heima í kafla B.
2.aðgerð Breyting
Að hvetja sjúklinga til virkrar þátttöku í eigin meðferð og styðja sjúklinga til eflingar og árangursríkrar sjálfsumönnunar.
Þetta er mikilvæg aðgerð þar sem reynslan sýnir að þekkingin ein dugar ekki án stuðnings. Þessum þætti má koma fyrir innan heilsugæslunnar.
3. aðgerð: Að efla heilsugæsluna til að sinna meðferð, stuðningi og eftirliti vegna langvinnra sjúkdóma.
Þessi aðgerð er í samræmi við leiðarstef 2 um aukna breidd í þjónustu og aðkomu fleiri fagaðila. Hins vegar telur Fíh að það þurfi að útfæra þessa aðgerð nánar m.t.t. hvaða langvinna sjúkdóma er verið að ræða svo og hvers konar meðferð. Eins má árétta hér mikilvægi þess að skilgreina og efla samstarf milli sérgreinasjúkrahúsa og heilsugæslunnar.
5.aðgerð: Flytja yfir í kafla B.
B. Lífsstílstengdir áhrifaþættir heilsu og forvarnir
B.1 Hreyfing
4. aðgerð. Viðbót
Aðskilja göngu- og hjólastíga til að minnka slysahættu.
Þessi aðgerð styður við B.5 Slysa- og ofbeldisvarnir.
B.2 Mataræði
2. aðgerð: Að hækka skatta og vörugjöld af vörum sem uppfylla ekki hollusturáðleggingar Embættis landlæknis.
Þar sem verð á matvöru hér á landi er hátt og hækkar stöðugt telur Fíh ráðlegra, með það að leiðarljósi að auka heilbrigði þjóðarinnar, að lækka skatta og vörugjöld af hollum matvælum s.s. ávöxtum, grænmeti, sykurskertum mjólkurvörum og fleiri vörum. Þannig gefst fleiri þjóðfélagshópum kostur á að velja ferskari og hollari matvöru sem í dag er verulega dýrari en mikið unnin og óhollari matvara. Þessi aðgerð styður einnig við B.3 Holdafar.
B.3 Holdafar
4. aðgerð. Viðbót
Hækka skatta og vörugjöld af gos- og svaladrykkjum sem fara yfir visst sykurmagn per 100gr.
Neysla á gosdrykkjum og sykruðum svaladrykkjum er mikil hér á landi. Sýnt hefur verið fram á neysla þessara drykkja hefur óæskileg áhrif á holdafar og heilsu fólks er þeirra neita. Þar sem drykkirnir teljast ekki til nauðsynlegrar né hollrar matvöru væri verjandi og reynandi að stýra neyslu þeirra með verðhækkun.
Þessi aðgerð styður við B.2 Mataræði og B.9 Tannheilsa.
B.5 Slysa- og ofbeldisvarnir
3. aðgerð: Viðbót skáletruð
Að heilsugæslan innleiði notkun gátlista og skilgreindra verkferla vegna heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis, í samvinnu við félagsþjónustu, heilbrigðisstofnanir og barnavernd.
B.8 Kynheilbrigði
3. aðgerð Viðbót
Að hjúkrunarfræðingar geti ávísað hormónatengdum getnaðarvörnum.
B.10 Vinnutengd heilsa
Þar sem markmiðið er öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi telur Fíh það mikilvægt að ekki sé einungis horft til fyrirtækja varðandi áætlun um heilsueflingu starfsfólks heldur sé nauðsynlegt að opinberar stofnanir, þar með taldar heilbrigðisstofnanir, setji sér einnig heilsueflingaráætlun. Víða er pottur brotinn hvað varðar starfsumhverfi innan heilbrigðisstofnana og því ætti velferðarráðuneytið að ganga á undan með góðu fordæmi og setja sér það markmið að allar heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús landsins verði búin að gera áætlun um heilsueflingu starfsmanna og heilsusamlegt starfsumhverfi í lok árs 2013.
Mælikvarðar: Viðbót
3. Að minnsta kosti 95% heilbrigðisstofnana og 50% stofnana ríkisins hafi sett sér áætlun um heilsueflingu starfsmanna, sem taki meðal annars til hreyfingar, geðheilsu og mataræðis þess fyrir árslok 2013.
2. aðgerð: Viðbót skáletruð
Að upplýsinga- og áróðursherferð um kerfisbundið vinnuverndarstarf í fyrirtækjum og stofnunum ríkisins verði sett af stað.
C. Örugg og heildstæð velferðarþjónusta
C.1 Samþætting og samfella í þjónustu
Fíh fagnar því að gera eigi könnun á samfellu í þjónustu einstaklinga sem þurfa að nota heilbrigðis- og félagsþjónustu sem í boði er hér á landi. Hins vegar saknar félagið ákveðinnar aðgerðarlýsingar þannig að klárt sé að þessi könnun og viðbrögð við henni fari af stað sem allra fyrst þar sem slík samhæfing er grundvöllur góðrar og hagkvæmrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er á viðeigandi þjónustustigi.
C.2 Heilsugæsla
Undanfarin ár, jafnvel áratugi hefur það verið stefna stjórnvalda að heilsugæslan skuli að jafnaði vera fyrsti viðkomustaður þeirra sem leita eftir heilbrigðisþjónustu og að hlutverk heilsugæslunnar skuli vera víðfeðmt. Í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 3. gr. er kveðið á um að svo skuli vera. Í stefnudrögunum er bent á að í stefnuyfirlýsingum íslenskra ríkisstjórna síðasta áratuginn hafi ítrekað komið fram samhljómur um áherslur í velferðarmálum og er þar einnig talað um að heilsugæslan skuli að jafnaði vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga (bls. 5).
Í kafla 3 um helstu viðfangsefni næstu ára er bent á að eitt af þremur leiðarstefjum heilbrigðisáætlunarinnar sé að heilsugæslan hafi meiri breidd í þjónustu með aðkomu fleiri fagaðila (bls.7).
Þrátt fyrir allt þetta hefur lítið verið gert til að efla heilsugæsluna jafnvel þvert á móti. Ef gera á heilsugæsluna að þeirri stofnun sem lög og stefnuyfirlýsingar kveða á um, en ekki einungis að viðhalda henni sem læknamóttöku, þarf að breyta fyrirkomulagi hennar algerlega. Gera þarf stefnumörkun um hlutverk hennar, skipulag, þjónustu og þörf fyrir sérhæft heilbrigðisstarfsfólk, skýrara en er að finna í þessum drögum að heilbrigðisáætlun. Einnig telur Fíh að kynna og markaðssetja þurfi heilsugæsluna fyrir landsmönnum þannig að í hugum þeirra verði hún sannarlega fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu.
C.3 Sérfræðiþjónusta
Hér þarf að skilgreina betur hvað er átt við með sérfræðiþjónustu. Er það sérfræðiþjónusta allra heilbrigðisstétta eða hluta þeirra og þá hvaða. Fíh minnir á stöðugt stækkandi hóp sérfræðinga í hjúkrun sem geta sinnt ýmis konar heilbrigðisþjónustu bæði í þéttbýli og dreifbýli og innan og utan stofnana.
C.4 Sjúkrahúsþjónusta
Markmið Viðbót skáletruð
Greiður aðgangur að nauðsynlegri og fullnægjandi sjúkrahúsþjónustu.
Mælikvarði 2. Viðbót skáletruð
Að meðferðarferli sjúklinga á sjúkrahúsum verði skilgreind fyrir tíu brýnustu sjúkdóma fyrir árslok 2015.
Hér þarf nánari skilgreiningu um hvað sjúkdóma átt er við, hvaða skilmerki á að setja um meðferð tiltekinna sjúkdóma o.fl. Sett er inn viðbótin brýnustu til að afmarka frekar þá sjúkdóma sem skilgreina á meðferðarferli fyrir.
2. aðgerð. Viðbót skáletruð
Að skilgreina viðmið vegna greiningar og meðferðar fjögurra stórra flokka bráðatilfella þ.e. alvarlegra áverka, bráðra verkja, bráðra kransæðaheilkenna og heilablóðfallssjúkdóma.
C.5 Gæði, öryggi og eftirlit
4. mælikvarði um skráningu atvika í rafrænan gagnagrunn Embættis landlæknis er afar mikilvægur og því telur Fíh nauðsynlegt að setja fram a.m.k. eina aðgerð fyrir þann mælikvarða. Það að koma á skilvirkri og áreiðanlegri atvikaskráningu hefur sýnt sig að vera bæði erfitt og vandasamt verk og því er nauðsynlegt að setja fram aðgerðaráætlun ef þetta markmið á að nást.
C.6 Mannafli í heilbrigðisþjónustu
Í þessum kafla er fjallað um aðgengi að upplýsingum, þarfagreiningu og að fjölga námsstöðum í heimilislækningum. Að mati Fíh eru þetta ekki helstu viðfangsefnin sem snerta mönnun í heilbrigðisþjónustu til ársins 2020.
Til að viðhalda nægilegum og raunhæfum mannafla innan heilbrigðisþjónustunnar þarf að leita svara við eftirfarandi grundvallarspurningum:
1. Hvernig á að bregðast við þarfagreiningum?
2. Hvernig á að tryggja að nægjanlega margir séu til að sinna þessum störfum?
3. Hvernig á að tryggja menntun þess mannafla sem mest þörf er fyrir hverju sinni?
4. Hvernig á að tryggja endurnýjun og viðhalda mannafla í þessi störf?
5. Hvernig á að tryggja verkaskiptingu þannig að verið sé að nýta þekkingu og færni hvers og eins á réttan og sem skilvirkastan hátt?
Í ljósi örrar fjölgunar aldraðra hér á landi og fyrirsjáanlegrar fækkunar hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna á næstu árum vegna þess hve stórir árgangar hefja töku lífeyris, er ljóst að tíminn til að bregðast við þessum breytingum er skammur. Það tekur langan tíma að mennta heilbrigðisstarfsfólk og því þarf að bregðast við í tíma. Ekki er tekið á því í þessari áætlun. Það að hafa nægilegan fjölda heilbrigðismenntaðs fólks er undirstaða þess að hægt sé að framfylgja heilbrigðisstefnu til ársins 2020.
Tillögur Fíh:
Yfirmarkmið
Þróun mannafla í heilbrigðisþjónustu tryggi fjölbreytni þjónustunnar á öllum stigum og sé í samræmi við þarfir allra landsmanna.
Mælanleg markmið
1. Kjör og starfsaðstaða heilbrigðisstarfsmanna verði sambærileg við það sem best gerist erlendis. Verði gert að viðurkenndu markmiði fyrir árið 2015.
2. Mannafli starfsstétta í heilbrigðisþjónustu taki mið af breytingum meðal annars aldurssamsetningu þjóðarinnar, lífslíkum og tækniframförum.
3. Skilgreint verði hlutverk og verksvið allra heilbrigðisstétta fyrir árið 2014.
4. Fjöldi í námi í heilbrigðisgreinum sé í samræmi við þörf á hverjum tíma og sé mælt árlega.
5. Fjöldi heilbrigðisstarfsfólks á hvern íbúa nái því sem best gerist erlendis á næstu 20 árum.
Aðgerðir:
1. Gerð verði mannaflaspá fyrir heilbrigðisstéttir sem byggir á aldursamsetningu þjóðarinnar, lífslíkum og tækniframförum. Ábyrgð hjá Hagstofunni.
2. Gerð verði könnun á kjörum heilbrigðisstétta erlendis. Niðurstöður slíkrar könnunar verði bornar saman við kjör heilbrigðisstétta hér á landi og nýttar til þess að vinna að jöfnun á kjörum. Ábyrgð hjá Fjármálaráðuneyti.
3. Verkaskipting helstu heilbrigðisstétta verði endurskoðuð fyrir lok ársins 2013. Ábyrgð hjá Embætti landlæknis.
4. Gerð verði áætlun um menntun heilbrigðisstétta ásamt kostnaðar- og aðgerðaráætlun fyrir lok árs 2012 Ábyrgð hjá Menntamálaráðuneyti.
5. Gerð verði aðgerðaráætlun til þess að styrkja grunnþætti heilbrigðisþjónustunnar og heilsugæslunnar fyrir árið 2013.
C.7 Rafræn skráning, miðlun og nýting heilsufarsupplýsinga
Mælikvarðar: Viðbót
4. Að tryggja gott aðgengi allra Íslendinga að áreiðanlegum upplýsingum um sjúkdóma, meðferðarmöguleika og líf með langvinnum sjúkdómum, þ.m.t. réttindi og skyldur.
5. aðgerð: Viðbót
Að koma á fót upplýsingavef um sjúkdóma, meðferðarmöguleika og líf með langvinnum sjúkdómum hýstum af Embætti landlæknis.
Í dag er til mikið magn misvandaðra upplýsinga um sjúkdóma og meðferð, sem finna má á ýmsum stöðum og á vegum margra ólíkra aðila. Fíh telur að það yrði til mikilla bóta að samræma þessar upplýsingar og birta á einum stað.
Fíh endurtekur þakkir fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma að vinnu við og veita umsögn um drög að heilbrigðisáætlun til 2020. Eins og að framan greinir telur félagið þó enn nokkuð í land í vinnu við heilbrigðisstefnuna þannig að hún geti orðið það leiðarljós í heilbrigðismálum sem nauðsynlegt er fram til 2020. Fíh vill gjarnan koma að frekari vinnu við þetta verkefni.
Virðingafyllst.
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
_______________________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður