Hjukrun.is-print-version

Ályktun um áhrif og hlutverk hjúkrunarfræðinga í heilbrigðiskerfinu á Íslandi (2013)

RSSfréttir
31. maí 2013

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunafræðinga (Fíh), haldinn á Hótel Natura föstudaginn 31. maí 2013 fagnar stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar í velferðarmálum.

Hjúkrunafræðingar gegna lykilhlutverki í að auka lífsgæði landsmanna með forvörnum fyrir samfélagshópa, bættri lýðheilsu og fyrirbyggingu og meðhöndlun einkenna langveikra sjúklinga. Jafnframt eru hjúkrunarfræðingar leiðandi í fræðslu, heilsueflingu og slysavörnum.

Aðalfundur Fíh hvetur stjórnvöld til að efla hlutverk heilsugæslu sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu. Auka þarf upplýsingagjöf til almennings og efla vaktþjónustu í grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu til að tryggja að þjónustan sé veitt á viðeigandi þjónustustigi. Tryggja þarf að fjármagn fylgi verkefnunum. Hjúkrunarfræðingar eru reiðubúnir að taka að sér fleiri verkefni í heilbrigðisþjónustunni sem snúa að framangreindum lykilverkefnum í heilsugæslu ásamt því að stýra áfram uppbyggingu á gæðaþjónustu og meðferð á hjúkrunarheimilum og  á sjúkrastofnunum. 

Langveikum og öldruðum fjölgar ört næstu áratugi. Þvi er afar brýnt að stjórnvöld auki aðgang að hjúkrun í samfélaginu fyrir þessa hópa á sérhæfðum göngudeildum, innan heimahjúkrunar og heilsugæslu. Virkja þarf þann mannauð sem felst í menntun og færni hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar telja tímabært að endurskoða verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins. Hjúkrunarfræðingar hafa í áratugi gegnt aðalhlutverki í samhæfingu umönnunar sjúklinga með því að skipuleggja og veita hjúkrun á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, heilsugæslustöðvum og víðar. Sérfræðingar í hjúkrun hafa menntun og færni til að taka að sér enn stærri verkefni í að stýra þjónustu við sjúklingahópa á Íslandi hvort sem um er að ræða grunnþjónustu eða sérhæfða þjónustu. Rannsóknir hafa sýnt að árangurinn af slíkum verkefnum er aukin gæði þjónustu, lægri kostnaður og bætt aðgengi sjúklinga að þjónustu. Það mun skila sér í aukinni velferð til lengri tíma.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála