Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunafræðinga (Fíh), haldinn á Hótel Natura föstudaginn 31. maí 2013 fagnar stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar í velferðarmálum.
Hjúkrunafræðingar gegna lykilhlutverki í að auka lífsgæði landsmanna með forvörnum fyrir samfélagshópa, bættri lýðheilsu og fyrirbyggingu og meðhöndlun einkenna langveikra sjúklinga. Jafnframt eru hjúkrunarfræðingar leiðandi í fræðslu, heilsueflingu og slysavörnum.
Aðalfundur Fíh hvetur stjórnvöld til að efla hlutverk heilsugæslu sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu. Auka þarf upplýsingagjöf til almennings og efla vaktþjónustu í grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu til að tryggja að þjónustan sé veitt á viðeigandi þjónustustigi. Tryggja þarf að fjármagn fylgi verkefnunum. Hjúkrunarfræðingar eru reiðubúnir að taka að sér fleiri verkefni í heilbrigðisþjónustunni sem snúa að framangreindum lykilverkefnum í heilsugæslu ásamt því að stýra áfram uppbyggingu á gæðaþjónustu og meðferð á hjúkrunarheimilum og á sjúkrastofnunum.