Hjukrun.is-print-version

Ályktun varðandi frumvarp til fjárlaga 2014

RSSfréttir
2. október 2013

Reykjavík  02. október 2013

 

 

Efni: Ályktun frá stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga varðandi frumvarp til fjárlaga 2014.

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir yfir miklum vonbrigðum með nýútkomið fjárlagafrumvarp ríkistjórnarinnar og mótmælir harðlega áformum sem þar koma fram varðandi heilbrigðiskerfið.  Skera á niður fjárframlag til reksturs Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana, innheimta  gjald af sjúklingum fyrir að leggjast inn á sjúkrahús og skera niður fé til tækjakaupa. Ekki er fyrirséð að reistur verði nýr Landspítali sem er mikil sóun á vinnu og fjármagni sem lagt hefur verið í undirbúning fyrir nýjan spítala. Til lengri tíma myndi það skila miklum ábata fyrir þjóðfélagið að ráðast í byggingu nýs spítala.

 

Stjórn Fíh leggur þunga áherslu á að bætt verði við framlögum til rekstrar Landspítalans og til annarra heilbrigðisstofnanna áður en fjárlagafrumvarpið hlýtur endanlega afgreiðslu. Verði fjárlögin fyrir árið 2014 samþykkt óbreytt jafngildir það 2,5-3,5% niðurskurði á fjárframlögum til Landspítala, þar sem ekki er gert ráð fyrir verðlagsbreytingum í framlögum til spítalans.

 

Á síðustu árum hefur Landspítala verið gert að skera niður í rekstri um 24% auk þess sem aðrar heilbrigðisstofnanir hafa þurft að skera niður umtalsverða fjármuni.  Stöðugar fréttir hafa verið af minnkandi starfsánægju starfsfólks, slæmu starfsumhverfi og flótta heilbrigðisstarfsfólks frá spítalanum.   Stjórn Fíh bendir á að með óbreyttum fjárframlögum til heilbrigðismála árið 2014 þarf að skerða verulega þjónustu við sjúklinga á Landspítala og á öðrum sjúkrahúsum, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir heilsu þjóðarinnar. 

 

Stjórn Fíh skorar á ríkisstjórn og Alþingi að auka verulega fjárframlög til heilbrigðismála og leita jafnframt annarra leiða til þess að tryggja að ríkissjóður verði rekinn hallalaus á árinu 2014. Brýnt er að hefja uppbyggingu á íslensku heilbrigðiskerfi. Velferð og heilsa þjóðarinnar er í húfi og verða ríkisstjórn og Alþingi að bera ábyrgð á því að reka heilbrigðiskerfið þannig að öryggi sjúklinga sé tryggt.

 

 

 

 

f.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

 

 

___________________________________________

Ólafur G. Skúlason, formaður

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála