3.
apríl 2014
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir yfir þungum áhyggjum varðandi hjúkrun aldraðra samhliða fækkun hjúkrunarfræðinga og annars fagfólks á hjúkrunarheimilum.
Fullnægjandi hjúkrun aldraðra er fyrst og fremst tryggð með viðeigandi mönnun fagfólks. Rannsóknir sýna að íbúar hjúkrunarheimila eiga sífellt við fleiri og flóknari heilsuvandamál að stríða og þörf fyrir sérhæfða hjúkrun eykst. Þá sýna rannsóknir einnig að lítil mönnun og minni menntun starfsfólks geta ógnað öryggi sjúklinga og aukið hættu á óæskilegum atvikum og alvarlegum mistökum sem geta leitt til dauða sjúklinga. Næg mönnun hjúkrunarfræðinga á hjúkrunarheimilum er því nauðsynleg.
Á Sólvangi hafa bæði hjúkrunarforstjóri og forstjóri bent á að þeim hafi verið gert skylt að skera enn meira niður og fækka starfsfólki þvert á mat og ráðleggingar landlæknisembættisins 2011. Niðurskurðurinn hefur haft bein og mælanleg áhrif á hjúkrunarþjónustuna eins og nýleg úttekt Embættis landlæknis sýnir.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetur heilbrigðis- og fjármálaráðherra til að tryggja öldruðum góða, örugga og sómasamlega heilbrigðisþjónustu með því að veita nægilegt fjármagn til reksturs hjúkrunarheimila í landinu.