Hjukrun.is-print-version

Umsögn varðandi verslun með áfengi og tóbak

RSSfréttir
10. nóvember 2014

Reykjavík 10. nóvember 2014



Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald á áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis) - 17. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga þakkar fyrir að fá að veita umsögn um frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak – 17. mál.
Að umsögninni kom einnig fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vill ítreka að allar alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að afnám einkasölu og aukið aðgengi að áfengi hefur í för með sér aukna notkun þess sem leiðir til aukinna heilbrigðis- og félagslegra vandamála og kostnaðar fyrir samfélagið.

Aukið aðgengi að áfengi er því ekki í samræmi við þau lýðheilsusjónarmið sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar er kveðið á um að bætt lýðheilsa og forvarnarstarf verði meðal forgangsverkefna hennar.

Í drögum að velferðarstefnu og heilbrigðisáætlun til ársins 2020 er fjallað sérstaklega um áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir í kaflanum um lífstílstengda áhrifaþætti heilsu og forvarnir. Þar er markmiðið að draga verulega úr neyslu þessara efna fyrir árið 2020, bæði heildaráfengisneyslu á hvern íbúa eldri en 15 ára og skaðlegri neyslu meðal fullorðinna.


Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er því mótfallið þeirri breytingu að færa sölu áfengis yfir í matvöruverslanir þar sem aukinn aðgangur að áfengi mun leiða til aukinnar heildarneyslu sem er andstætt bættri lýðheilsu þjóðarinnar.

Virðingarfyllst,

Ólafur G. Skúlason, formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála