Hjukrun.is-print-version

Reynsla ungra kvenna af kynsjúkdómamóttöku: Þörfin fyrir öryggi og vingjarnlegt viðmót

RSSfréttir
16. apríl 2015

Þörfin fyrir öryggi og vingjarnlegt viðmót


Sóley S. Bender, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Jenný Guðmundsdóttir, göngudeild kynsjúkdóma Landspítalans

 

Tilgangur: Rannsóknir hafa sýnt margvíslegar hindranir sem ungt fólk verður fyrir í sambandi við aðgengi og notkun kynheilbrigðisþjónustu. Þessi rannsókn er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi þar sem reynsla ungra kvenna af kynsjúkdómamóttöku er skoðuð með eigindlegri aðferð.

Aðferð: Rannsóknin byggist á túlkandi fyrirbærafræði. Tekin voru eigindleg viðtöl við sjö ungar konur á aldrinum 17-23 ára. Þær voru valdar af handahófi úr hópi 34 einstaklinga sem mættu á kynsjúkdómamóttöku. Viðtölin voru skráð frá orði til orðs. Við gagnagreiningu var stuðst við túlkunarkenningu Ricoeur.

Niðurstöður: Í ljós komu þrjú meginþemu: feimnismál, spenna og léttir en að baki bjó skömmin. Niðurstöður sýndu að ungu konurnar lifðu í samfélagi þar sem kynsjúkdómar eru feimnismál. Þær fundu fyrir innri spennu í sambandi við að nálgast þjónustuna og í tengslum við sjálfa heimsóknina en voru fegnar því hversu vel móttakan var falin og að mæta skilningsríku og fordómalausu fagfólki. Þær höfðu mikla þörf fyrir að geta farið í gegnum þjónustuferlið með reisn þar sem tekið væri tillit til þarfa þeirra. Áður en þær komu á móttökuna og í gegnum þjónustuferlið blundaði með þeim sá ótti að
einhver kæmist að því að þær hefðu farið þangað. Óttinn við skömmina lá í loftinu.

Ályktanir: Konurnar fundu fyrir spennu varðandi heimsóknina og voru að mörgu leyti auðsæranlegar. Það var þeim mikils virði að njóta virðingar í gegnum þjónustuferlið. Niðurstöður benda til að auðvelda þurfi aðgengi að þjónustunni og huga að
gæðum hennar þannig að þjónustuferlið reynist jákvætt.

Lykilorð: Ungar konur, kynsjúkdómar, kynheilbrigðisþjónusta, reynsla, gæði þjónustunnar.

2.tbl. 2015: Reynsla ungra kvenna af kynsjúkdómamóttöku: Þörfin fyrir öryggi og vingjarnlegt viðmót

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála