Helga Bragadóttir, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Hulda S. Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Ásta S. Thoroddsen, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Á Íslandi hafa hjúkrunarfræðingar ekki leyfi til að gefa lyf án ávísunar frá lækni en lyfjagjöf hjúkrunarfræðinga án milligöngu læknis þekkist þó í bráðaþjónustu hérlendis.
Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á umfang og eðli stakra lyfjagjafa hjúkrunarfræðinga án skriflegra fyrirmæla lækna á Landspítala. Um lýsandi afturvirka megindlega rannsókn var að ræða. Í þýðinu voru allar ávísaðar og skráðar lyfjagjafir á Landspítala í rafræna lyfjaumsýslukerfinu Therapy sem voru 1.586.684 árið 2010 og 1.633.643 árið 2011. Í úrtakinu voru stakar lyfjagjafir hjúkrunarfræðinga á Landspítala án skriflegra fyrirmæla lækna, sem voru skráðar í rafræna lyfjaumsýslukerfið Therapy undir heitinu umbeðið af hjúkrun árin 2010 og 2011, samtals 24 mánaða tímabil. Gögn voru fengin frá heilbrigðis- og upplýsingatæknisviði Landspítala að fengnum viðeigandi leyfum. Við úrvinnslu voru gögnin lesin inn í Microsoft Excel með Power Pivot viðbót.
Árið 2010 voru stakar lyfjagjafir 4% (n=63.454) af heildarlyfjagjafafjölda á Landspítala og 4,23% (n=69.132) árið 2011. Fjöldi stakra lyfjagjafa jókst um 8,95% frá 2010 til 2011 og er það marktækur munur á árum χ2 (1, N=159.586) = 243,46, p<0,001. Flestar stakar lyfjagjafir hjúkrunarfræðinga voru á skurðlækninga og lyflækningasviðum bæði árin. Mest var um stakar lyfjagjafir hjúkrunarfræðinga um kl. 22 á kvöldin. Flestar stakar lyfjagjafir hjúkrunarfræðinga komu úr lyfjaflokki N (m.a. verkjalyf, svefnlyf og róandi lyf), 65,34% árið 2010 og 65,03% árið 2011, lyfjaflokki A (m.a. ógleðistillandi lyf og sýrubindandi lyf), 15,70% árið 2010 og 16,78% árið 2011, og lyfjaflokki M (m.a. bólgueyðandi gigtarlyf), 6,23% árið 2010 og 5,38% árið 2011. Þessar niðurstöður benda til þess að stakar lyfjagjafir hjúkrunarfræðinga án skriflegra fyrirmæla lækna séu nokkuð algengar á Landspítala. Niðurstöðurnar krefjast þess að viðfangsefnið sé skoðað nánar og verklag við lyfjavinnu á bráðasjúkrahúsum endurskoðað.
Lykilorð: hjúkrunarfræðingar, lyfjafyrirmæli, sjúkrahús, stakar lyfjagjafir.
2.tbl. 2015: Stakar lyfjagjafir hjúkrunarfræðinga án skriflegra fyrirmæla lækna