Hjukrun.is-print-version

2. fundur stjórnar Fíh 2015 – 2016

RSSfréttir
18. júní 2015

fimmtudagur 18. júní 2015 kl. 15:00

Mættir:
Arndís Jónsdóttir, Birgir Örn Ólafsson, Díana Dröfn Heiðarsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir, Guðrún Gyða Ölvisdóttir, Hrönn Håkansson, Jóhanna Kristófersdóttir, Kristín Thorberg, Ólafur G. Skúlason, Ólöf Árnadóttir, Ragnheiður Gunnarsdóttir og Svava Björg Þorsteinsdóttir.

Á fjarfundi:
Ragnhildur Rós Indriðadóttir

Boðuð forföll:
Bylgja Kristófersdóttir og Svanhildur Ósk Sigurfinnsdóttir.

Gestir:
Jón Sigurðsson, lögfræðingur Fíh.

 

Til afgreiðslu:


1. Ákvörðun um dómsmál vegna lagasetningar.
Í ljósi laga 31/2015 vill stjórn fá álit lögfræðings á réttmæti laganna og hvort möguleiki sé að höfða mál gegn ríkinu og fá lögunum hnekkt. Lögfræðingur leggur fyrir fundinn minnisblað sem hann hefur tekið saman um málið og fer yfir minnisblaðið.

Telur lögfræðingur Fíh að félaginu sé unnt að höfða dómsmál gegn ríkinu til þess að fá viðurkennt að félaginu sé þrátt fyrir ákvæði laga 31/2015 heimilt að beita verkfallsvopninu vegna félagsmanna sem starfa hjá ríkinu og fái viðurkennt að niðurstaða gerðardóms bindi félagsmenn ekki. Ástæður málsins myndu byggjast á því að lögin brytu í bága við ákvæði stjórnarskrár um félagafrelsi og atvinnufrelsi sem og gegn félagafrelsisákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.

Meðal þeirra raka sem lögfræðingur telur að vinni með Fíh eru:

  1. Að ekki séu jafn ríkir almannahagsmunir í húfi líkt og haldið er fram sem réttlæti lagasetningu. Líta þurfi til þess að í verkfalli hjúkrunarfræðinga eru í gangi s.k. öryggislistar sem tiltaka ákveðna mönnun hjúkrunarfræðinga sem þurfa að vera til staðar á meðan á verkfalli stendur. Auk þess eru veittar undanþágur frá verkfalli þegar ástandið er metið svo að bæta verði í mönnun. Nær undantekningarlaust hafa slíkar undanþágur verið veittar.
  2. Fundir í deilunni hafa einungis verið 14 en í fyrri fordæmisgefandi dómum er ein af meginástæðum þess að Hæstiréttur Íslands taldi fullreynt að sættir náðust í málum, að fjöldi funda var svo mikill að ljóst var að fullreynt hafi verið að ná sáttum á milli aðila sbr. dóm vegna sjómannadeilunnar árið 2001. Fjöldi funda í deilu Fíh og ríkisins gefur ekki til kynna að fullreynt hafi verið að ná sáttum.
  3. Verkfallsaðgerðir hjúkrunarfræðinga höfðu aðeins staðið í átján daga.
  4. Forsendur sem Gerðardómi eru settar í lögunum eru þess eðlis að hann á erfitt með að komast að annarri niðurstöðu en ríkið hefur þegar lagt fram við samningsborðið. Með forsendunum er ríkisvaldið, sem einnig er viðsemjandi Fíh, að knýja Fíh til að gangast undir þau kjör og viðmið sem framkvæmdarvaldið telur rétt að samið verði um.

Málið er rætt innan stjórnar og lögmaður svarar spurningum stjórnarmanna. Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga samþykkir að höfða skuli mál gegn íslenska ríkinu vegna laga nr. 31/2015


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:00
Jóhanna Kristófersdóttir, ritari stjórnar Fíh.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála