Umbótastarf og mat á gæðum heimahjúkrunar með gæðavísum interRai-home care matstækisins: íhlutunarrannsókn
Unnur Þormóðsdóttir, Heilbrigðisstofnun Suðurlands
Sólveig Ása Árnadóttir, námsbraut í sjúkraþjálfun, Háskóla Íslands
Ingibjörg Hjaltadóttir, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og flæðissviði Landspítala
Öldruðum fer fjölgandi og hefur þörfin fyrir þjónustu í heimahúsi aukist í takt við það. Krafan um að heilbrigðisstofnanir veiti góða þjónustu og fé sé vel varið eykst stöðugt. Með tilkomu matstækisins interRAI-Home Care (interRAI-HC) og tilheyrandi gæðavísa opnast möguleikar á að meta gæði heilbrigðisþjónustu í heimahúsum.
Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga hvort hægt væri að hafa áhrif á gæði þjónustu heimahjúkrunar með fræðslu til starfsfólks og notkun á gæðavísum interRAI-HC. Rannsóknin var megindleg íhlutunarrannsókn sem fylgdi fyrir-eftirrannsóknarsniði
án samanburðarhóps. Gögnin voru byggð á upplýsingum úr mati sem framkvæmt var í interRAI-HC frá 31skjólstæðingi heimahjúkrunar á Selfossi. Starfsfólk tók þátt í
ákvörðunum varðandi val á þremur interRAI-HC gæðavísum sem stefnt var á að bæta með íhlutun í formi fræðslu. Að auki var fylgst með stöðu tíu gæðavísa sem íhlutunin beindist ekki sérstaklega að. Þátttakendur í rannsókninni voru á aldrinum 60 til 94 ára (meðalaldur 79,2 ár), hlutfall kvenna var 64,5% og bjuggu 51,6% skjólstæðinga einir. Starfsmenn ákváðu að beina íhlutun að gæðavísum um byltur, félagslega einangrun
og ófullnægjandi verkjastillingu þeirra. Á rannsóknartímanum lækkaði hlutfall þeirra sem hlutu byltu úr 22,6% í fyrra mati í 0% í seinna mati (p = 0,012). Hinir tveir gæðavísarnir, sem íhlutun beindist sérstaklega að, lækkuðu hlutfallslega þó að munurinn væri ekki marktækur. Sjö af þeim tíu gæðavísum, sem íhlutun beindist ekki að, sýndu breytingar í átt til hins betra.
Niðurstöður benda til að með fræðslu til starfsfólks sé hægt að bæta þjónustu við skjólstæðinga heimahjúkrunar. Starfsfólk var áhugasamt og vildi taka þátt og hafa áhrif á sína vinnu til hins betra. Niðurstöður benda einnig til að notkun interRAI-HC-matstækisins og gæðavísa þess sé gagnleg í umbótavinnu og geti nýst fleiri heilsugæslustöðvum.
Lykilorð: Aldraðir, interRAI-HC, gæðavísar, íhlutun, heimahjúkrun.