Hjukrun.is-print-version

Líðan dagaðgerðarsjúklinga eftir svæfingu: Samanburður á sjúklingum sem fara í kvensjúkdómaaðgerð og bæklunaraðgerð

RSSfréttir
28. febrúar 2016

Þórdís Borgþórsdóttir, Aðgerðasviði Landspítala
Herdís Sveinsdóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Skurðlækningasviði Landspítala


Dagskurðaðgerðum hefur fjölgað á Íslandi og um allan heim. Dagaðgerðasjúklingar þurfa oft að kljást við fylgikvilla eftir aðgerð og svæfingu á borð við verki, ógleði, uppköst og þreytu.

Markmið þessarar framsýnu ferilrannsóknar var að lýsa og greina mun á líðan dagaðgerðasjúklinga sem fara í svæfingu vegna kvensjúkdómaaðgerðar annars vegar og bæklunaraðgerðar hins vegar.

Dagaðgerðasjúklingum, sem fóru í kvensjúkdóma- eða bæklunaraðgerð á Landspítala á fjögurra mánaða tímabili, var boðin þátttaka. Gagna var aflað úr sjúkraskrá og með spurningalistum að morgni aðgerðardags (T1), daginn eftir aðgerð (T2) og fjórum dögum eftir aðgerð (T3). Á T1 var spurt um sjálfmetna andlega og líkamlega heilsu, á T2 var mælitækið QoR-40 lagt fyrir auk spurninga um hæsi, þorsta og þreytu. Á T3 var spurt sömu spurninga og á T1 og T2 auk bakgrunnsspurninga. QoR-40 inniheldur 40 spurningar sem skiptast í 5 flokka: Líkamlega líðan, líkamlegt sjálfstæði, tilfinningalegt ástand, sálfélagslegan stuðning og verki. Til að greina mun á hópunum var notað t-próf óháðra úrtaka og kí-kvaðratpróf. Miðað var við marktektarmörkin 0,05.

Sjúklingar, sem fóru í kvensjúkdómaaðgerð, voru 59 og í bæklunaraðgerð 62. Meðalstigafjöldi á QoR-40 hjá sjúklingum, sem fóru í kvensjúkdómaaðgerð, var á T2 180,6 (sf=15,5) og á T3 184,8 (sf=12,7). Sambærileg stig fyrir þá sem fóru í bæklunaraðgerð voru 169,1 (sf=19,0) og 171,6 (sf=19,9). Bæklunaraðgerðir voru marktækt lengri en kvensjúkdómaaðgerðir. Sjúklingar, sem fóru í bæklunaraðgerð, þurftu frekar aðstoð við daglegar athafnir á T3, komu marktækt verr út á undirflokkum QoR-40 og greindu frekar frá þreytu, hæsi og þorsta heldur en þeir sem fóru í kvensjúkdómaaðgerð.

Niðurstöðurnar benda til þess að sjúklingar, sem fara í bæklunaraðgerð, séu mun lengur að ná sér eftir dagskurðaðgerðir heldur en sjúklingar sem fara í kvensjúkdómaaðgerð. Hjúkrunarfræðingar þurfa að greina þá sjúklinga fyrir aðgerð sem hætta er á að muni eiga í erfiðleikum með að ná bata og undirbúa þá í tíma fyrir það sem koma skal.

Lykilorð: Líðan eftir dagskurðaðgerð, svæfing og dagaðgerðasjúklingur.

 

2.tbl. 2016: Líðan dagaðgerðarsjúklinga eftir svæfingu: Samanburður á sjúklingum sem fara í kvensjúkdómaaðgerð og bæklunaraðgerð 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála