Hjukrun.is-print-version

6. fundur stjórnar Fíh 2015 – 2016

RSSfréttir
19. mars 2016

Þriðjudagur 19. mars 2016 kl. 09:00

Mættir:
Arndís Jónsdóttir, Birgir Örn Ólafsson, Bylgja Kristófersdóttir, Díana Dröfn Heiðarsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir, Jóhanna Kristófersdóttir, Kristín Thorberg, Ólafur G. Skúlason, Ólöf Árnadóttir, Ragnheiður Gunnarsdóttir, Svava Þorsteinsdóttir og Svanhildur Ósk Sigurfinnsdóttir.

Boðuð forföll:
Hrönn Håkansson

Á fjarfundi:
Ragnhildur Rós Indriðadóttir og Svava Björg Þorsteinsdóttir.

Mætti ekki:
Guðrún Gyða Ölvisdóttir

Til afgreiðslu:

  1. Fundagerð síðasta fundar.
    Afgreiðsla: Fundargerð samþykkt.

  2. Lagabreytingar
    Formaður leggur fram tillögur að lagabreytingum Félags íslenska hjúkrunarfræðinga sem leggja á fyrir aðalfund 2016. Um ræðir heildarendurskoðun á lögum. Margar breytingar eru þess eðlis að verið er að færa lögin í átt að nútímanum og að því verklagi sem viðhefst í dag. Nokkrar stórar breytingar er að sjá í lögunum. Ber þar hæst að nefna breytingu á stærð stjórnar félagsins, breytingar á skipulagi fag- og svæðisdeilda og lagt til að formannsefni nái ákveðnu lágmarki meðmælenda til að geta boðið sig fram.
    Umræða tekin um lagabreytingarnar.
    Afgreiðsla: stjórn samþykkir að leggja lagabreytingar fyrir aðalfund 2016.

  3. Formannsbreytingar
    Ólafur G. Skúlason formaður sótti um starf í janúar s.l. líkt og stjórn var tilkynnt um á þeim tíma. Hlaut Ólafur starfið og hefur hann ákveðið að taka því. Ólafur á töluvert inni af kjarasamningsbundnu leyfi sem hann mun taka út. Mun Guðbjörg Pálsdóttir varaformaður leysa Ólaf af á meðan. Ólafur mun svo láta formlega af störfum sem formaður félagsins 1. september næstkomandi. Auglýst verður eftir formannsframboðum í desember líkt og vant er. Stjórn fer þar á svig við lög félagsins þar sem skv. þeim skal kjósa nýjan formann innan fjögurra mánuða frá því að formaður lætur af embætti. Ætti þvi að kjósa nýjan formann fyrir desember 2016. skv. lögunum skal jafnframt kjósa formann á oddatöluári og hefst næsta kjörtímabil í maí 2017. Þarna kemur fram óhagræði í lögum sem ekki sást fyrir þegar þau voru samin. Hvorki þykir kostnaðarlega forsvaranlegt að kosið skuli um formann bæði í desember og í mars né heldur að skipt sé um formann margsinnis á eins árs tímabili. Einnig er ólíklegt að nokkur bjóði sig fram til setu sem formaður í fimm mánuði.

    Afgreiðsla: Stjórn samþykkir að Ólafur taki út það leyfi sem hann á inni áður en hann lætur formlega af störfum enda fordæmi fyrir því innan félagsins að sitjandi formaður fari í leyfi og varformaður leysi hann af. Stjórn samþykkir einnig að farið verður í venjubundið formannsframboð í desember 2016. Guðbjörg Pálsdóttir mun því gegna formannsembættinu þar til nýr formaður hefur verið kosinn í mars 2017.

  4. Kosning nýs varaformanns
    Arndís Jónsdóttir býður sig fram sem nýjan varaformann Fíh.
    Afgreiðsla: samþykkt.

Til umræðu:
  1. Starfsemisáætlun
    Stjórn Fíh vill leggja áherslu á ýmis málefni á næsta starfsári. Þar má nefna:
    • Fjölgun hjúkrunarfræðinga á Íslandi og samstarf við stjórnvöld þess efnis
    • Vinna að þróun og innleiðingu starfa Nurse Practicioner á Íslandi og víkkun starfsviðs sérfræðinga í hjúkrun.
    • Vinna að bættri hjúkrunarþjónustu við aldraða af hendi fagaðila.
    • Efling trúnaðarmannakerfis Fíh
    • Umræða innan félagsins um einkarekstur og einkavæðingu innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi.
    • Vinna að aukinni þjálfun ófaglærðra i umönnunarstörfum innan heilbrigðiskerfisins.


Til kynningar:
  1. Fjárhagur Fíh 2015
    Sólveig Stefánsdóttir fjármálastjóri fór yfir fjárhag Fíh fyrir árið 2015. Heildarstaðan er tæpum 10 milljónum betri en gert var ráð fyrir.

  2. Aðalfundur
    Aðalfundur Fíh verður haldinn 20. maí á Grand hótel. Gert er ráð fyrir að fundurinn taki heilan dag vegna lagabreytinga.

  3. Alþjóðadagur hjúkrunarfræðinga
    Alþjóðlegur hátíðsdagur hjúkrunarfræðinga er þann 12. maí og verður opið hús í Fíh að því tilefni. Stjórnarmenn hvattir til að fá hjúkrunarfræðinga til að mæta á fundinn. Ekki verður um erindi eða kynningar að ræða heldur tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga að koma saman og ræða saman.

  4. Afsögn Herdísar Gunnarsdóttur úr stjórn EFN
    Vegna persónulegra ástæðna hefur Herdís Gunnarsdóttir sagt sig úr stjórn EFN. Herdís hefur unnið þar mikið og gott starf og verið verðugur fulltrúi íslenskra hjúkrunarfræðinga og þakkar Fíh henni fyrir vel unnin störf.

  5. Móttaka 28.apríl í orlofshúsi Fíh
    Nýtt orlofshús verður tekið í notkun í apríl og er stjórn Fíh boðið í formlega opnun þess að Lokastíg 4.

  6. Kjarasamningar við Samband sveitafélaga
    Enn hefur ekki verið lokið við kjarasamninga Fíh við sveitarfélögin. Líkt og áður hefur verið farið yfir er Samband íslenskra sveitarfélaga að klára saminga sem runnu út áður en samningur þeirra við Fíh rann út og þeir uppteknir í því. Næst hjá þeim eru BHM samningar og því næst hjúkrunarfræðingar. Samninganefnd Sveitarfélaga hefur fullvissað samninganefnd Fíh um það að þessi töf komi ekki niður á hjúkrunarfræðingum heldur fái þeir hækkanir afturvirkt frá þeim tíma sem samningur aðila varð laus þann 1. september. Samninganefnd telur að samingur ættu að nást í apríl/maí.


Önnur mál

  1. Fundagerð framkvæmdaráðs
    Farið yfir síðustu fundagerð framkvæmdaráðs.

  2. Örþing vegna dómsmáls
    Vegna óhjákvæmilegra ástæðna var ekki unnt að halda málþingið sem stjórn ákvað að halda skyldi um réttarstöðu hjúkrunarfræðinga á síðasta fundi sínum. Stefnt verður að því að halda slíkt málþing á næsta starfsári og þá kannski með breiðari fókus.

  3. Lífeyrissjóðsmál
    Ragnheiður Gunnarsdóttir sem situr í stjórn lífeyrissjóðsins fyrir hönd Fíh kynnti vinnu sjóðsins. Rætt var um umræðu lífeyrissjóðsmála í fjölmiðlum.

  4. Sviðsstjóri kjara- og réttindamála
    Auglýst var eftir sviðsstjóra kjara- og réttindamála og bárust 6 umsóknir. Tveir voru boðaðir í viðtal og að þeim loknum ákvað framkvæmdaráð að ráða Gunnar Helgason í starfið sem sinnt hefur starfinu í afleysingu síðastliðið ár. Gunnar reyndist hæfari einstaklingur af þeim tveimur sem teknir voru í viðtal.

  5. Aukaútgáfa á tímariti til eflingar öldrunarhjúkrunar
    Komið hefur tillaga frá aðjúnkt í öldrunarhjúkrun frá HÍ sem felur í sér að gefnar verði út greinar sem nemendur í diplómanámi í öldrunarhjúkrun hafa verið að vinna að. Tillagan hljómar upp á að Fíh beri kostnað af yfirlestri og umbroti útgáfunnar. Með þessu væri félagið að fylgja eftir skýrslunni um eflingu öldrunarhjúkrunar sem kom út árið 2015.
    Afgreiðsla: stjórn samþykkir að taka þátt í útgáfu tölublaðs/aukablaðs/viðauka um öldrunarhjúkrun. Ritstjóra TH verður falið að fylgja þessu eftir í samráði við formann Fíh. Formaður mun hafa eftirlit ásamt framkvæmdaráði hvað varðar kostnað við slíka útgáfu.

Að lokum þakka stjórnarmeðlimir Ólafi fyrir vel unnin störf og óska honum velfarnaðar í starfi á nýjum vettvangi.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:45

Jóhanna Kristófersdóttir, ritari stjórnar Fíh.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála