Hjukrun.is-print-version

Umsögn um lög nr. 25/1975

RSSfréttir
29. apríl 2016

Reykjavík 29. apríl 2016

Velferðarráðuneytið
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík


Efni: Umsögn um lög nr. 25/1975
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir yfir ánægju sinni með að fram eigi að fara heildarendurskoðun á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Tímabært er að færa lögin til nútímans í samræmi við breyttar aðstæður, meðferðir og viðhorf sem nú ríkja til þessara mála.

Fíh vill sérstaklega undirstrika mikilvægi 1. kafla laganna um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Kynheilbrigði er hluti af lýðheilsu. Því er mikilvægt fyrir heilbrigði þjóðar að huga sérstaklega að kynheilbrigði unglinga og ungs fólks og á sú fræðsla ekki að einskorðast við kynlíf og barneignir. Félagið leggur áherslu á að fagfólk sjái um kynfræðslu og ráðgjöf og bendir á að hjúkrunarfræðingar gætu starfrækt móttökur á heilsugæslustöðvum og í skólum sem sinntu slíkri þjónustu. Í því sambandi ætti að gefa hjúkrunarfræðingum með tilskylda menntun kost á að ávísa getnaðarvörnum og gera þeim það kleift í lögum sem þessum eða með sérstakri reglugerð. Sérhæf kynfræðsla og ráðgjöf ætti að vera á höndum fagfólks sem hefur lokið ákveðinni kynfræðimenntun og/eða endurmenntun í kynfræði.

Hvað varðar núverandi lagagreinar um fóstureyðingar telur félagið mikilvægt að breyta þeim í grundvallaratriðum. Fíh leggur áherslu á að sjálfsákvörðunarréttur konunnar yfir eigin líkama sé virtur enda endurspeglar það viðhorf og kröfur nútímans. Konur eiga ekki að þurfa að afsala þeim rétti til óskyldra aðila, lækna eða félagsráðgjafa sbr. 11.gr. núgildandi laga. Slík forræðishyggja er ekki ásættanleg árið 2016.

Fíh telur að orðið fóstureyðing sé mjög gildishlaðið orð og því ætti að nota annað orð í staðinn. Félagið leggur til að í stað fóstureyðingar verði notað orðið „þungunarrof“ sem er tillaga greinarhöfunda sem rituðu grein í Læknablaðið 12. tbl. 101. árg. 2015 undir heitinu Þungunarrof á Íslandi í 80 ár. Góð reynsla en þörf á að breyta.

Fíh telur einnig að sömu forræðishugsunar gæti í kafla 3 um ófrjósemisaðgerðir. Félagið lítur svo á að óski lögráða einstaklingur eftir ófrjósemisaðgerð skuli hann fá slíka aðgerð framkvæmda og að ekki sé hægt að framkvæma slíkar aðgerðir á einstaklingum gegn vilja þeirra eða að þeim forspurðum. Aldurstakmarkið við 25 ár er ekki rökstutt á neinn hátt og því ber að fella það út úr lögunum. Gert er ráð fyrir að viðkomandi einstaklingur sé fræddur um aðgerðina fyrir framkvæmd hennar, áhrif hennar og mögulega fylgikvilla líkt og aðrar aðgerðir sem fólk gengst undir og því þurfi ekki að binda fræðsluskyldu varðandi þær aðgerðir í lög frekar en við aðrar aðgerðir.

Fíh gerir eftirfarandi athugasemdir við einstaka lagagreinar í núgildandi lögum:

1. kafli. Ráðgjöf og fræðsla.
1.gr. orðist svo:
Gefa skal fólki kost á ráðgjöf og fræðslu varðandi kynheilbrigði, kynlíf og barneignir.
Embætti Landlæknis hefur á höndum yfirumsjón með framkvæmd og uppbyggingu slíkrar ráðgjafar og fræðslu.

2.gr. orðist svo:
Ráðgjöf og fræðslu skal veita eftir því sem við á um eftirfarandi:
1. Ábyrgð og virðingu í kynlífi
2. Getnaðar- og kynsjúkdómavarnir
3. Ábyrgð foreldrahlutverksins
4. Þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir
5. Áhrif veikinda, aldurs og fötlunar á kynheilbrigði
6. Kynlífsvandamál

3.gr. orðist svo:
Fræðslu og ráðgjafarþjónustu skal veita á heilsugæslustöðvum, í skólum og á heilbrigðisstofnunum eftir því sem við á.

4.gr. orðist svo.
Að fræðslu og ráðgjafaþjónustu skulu starfa fagaðilar svo sem læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, félagsráðgjafar, kynlífsráðgjafar, kynfræðingar og kennarar.

5.gr. orðist svo
Auðvelda skal útvegun getnaðarvarna með því að hafa smokka aðgengilega í skólum, á skemmtistöðum og öðrum þeim stöðum sem ungt fólk sækir. Auk lækna skulu hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem annast fræðslu og ráðgjöf hafa leyfi til að ávísa á hormónatengdar getnaðarvarnir.

6.gr. orðist svo:
Ráðgjöf fyrir fólk sem íhugar þungunarrof eða ófrjósemisaðgerð tekur til eftirfarandi þátta eftir því sem við á:
1. Læknismeðferð
2. Þungunarprófanir
3. Ráðgjöf og stuðningsviðtöl
4. Félagslega aðstoð
5. Aðstoð við umsókn og tilvísun til sjúkrahúss

7.gr. orðist svo:
Embætti landlæknis skal í samráði við skólayfirvöld sjá til þess að skólahjúkrunarfræðingar veiti fræðslu um kynheilbrigði og kynverund í grunn- og framhaldsskólum landsins.

2. kafli. Um fóstureyðingar.

8.gr. orðist svo:
Þungunarrof er samkvæmt lögum þessum læknisaðgerð sem kona gengst undir til að binda enda á þungun fyrir 12.-16 (18). viku meðgöngu.

9.gr. orðist svona:
Þungunarrof er heimilt óski kona þess. Aðgerðin skal framkvæmd fyrir 12.-16 (18). viku meðgöngu og að undangenginni óhlutdrægri fræðslu og ráðgjöf óski hún þess.

10.gr. orðist svo:
Þungunarrof skal framkvæmt eins fljótt og auðið er, helst fyrir lok 12. viku meðgöngu.
Þungunarrof skal ekki framkvæmt eftir 16 (18). viku meðgöngutímans nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður, heilsu konunnar sé stefnt í því meir hættu með lengri meðgöngu eða fæðingu og miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs sé að ræða.
Ekki skal framkvæma þungunarrof nema með samþykki konunnar.

11.gr. falli niður þar sem ekki er gert ráð fyrir að það þurfi að liggja fyrir skrifleg rökstudd greinargerð tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa.

12.gr. falli niður. Gert er ráð fyrir fræðslu og ráðgjöf í 9.gr.

13.gr. orðist svo:
1. Kona skal sjálf sækja um þungunarrof.
2. Sé kona af einhverjum ástæðum ófær um að gera það sjálf skal hún fá til þess aðstoð fagfólks eftir því sem við á.
3. Hætti konan við þungunarrofið ber henni að staðfesta þann vilja sinn skriflega.

14.gr. óbreytt.

15.gr. Einungis læknar mega framkvæma þungunarrof hvort sem um er að ræða aðgerð á sjúkrahúsi, viðurkenndum skurðstofum utan sjúkrahúsa eða aðgerð framkvæmda með lyfjum.

16.gr. falli niður. Óþarfi að binda fræðslu við útskrift og eftirmeðferð í lög.

3. kafli. Um ófrjósemis aðgerðir.

17.gr. óbreytt.

18.gr. orðist svo:
Ófrjósemisaðgerð er heimil samkvæmt lögum þessum sé það eindregin ósk lögráða einstaklings, engar heilsufarslegar ástæður hindra slíka aðgerð og undirrituð umsókn viðkomandi liggur fyrir.
Ófrjósemisaðgerð er ekki heimil gegn vilja og samþykkis einstaklings.

19.gr. falli niður.

20.gr. falli niður.

21.gr. falli niður.

22.gr. falli niður.

23.gr. verður ný 19.gr. og orðist svo:
Einungis læknar með sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum, kvensjúkdómum og þvagfæraskurðlækningum mega framkvæma ófrjósemisaðgerðir.
Aðgerðirnar má einungis framkvæma á sjúkrahúsum og skurðstofum utan sjúkrahúsa sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra.

4. kafli. Almenn ákvæði.

24.gr. falli niður enda gert ráð fyrir að bæði 11. og 19. gr. falli niður.

25.gr. falli niður þar sem ekki er gert ráð fyrir að óskum um þungunarrof og ófrjósemisaðgerð sé synjað nema ef sérstakar heilsufarslegar ástæður eru fyrir hendi. Þess skal þá getið í journal eða öðru skráningarkerfi sem notað er í heilbrigðisþjónustunni.

26.gr. orðist svo:
Heilbrigðisyfirvöldum ber að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og sjá um, að á sjúkrahúsum ríkisins og skurðstofum utan sjúkrahúsa sem fengið hafa leyfi ráðherra, sé hægt að framkvæma þær aðgerðir, sem lögin gera ráð fyrir. Stuðla ber að samræmi í framkvæmd þeirra í öllum landshlutum. Þeim, er starfa að framkvæmd laganna, skal veitt fræðsla og leiðbeiningar í því skyni.

27.gr. falli niður. Kveðið er á um þagnarskyldu heilbrigðisstétta í lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr.34 15.maí 2012, 17.gr.

28.gr. falli niður.

31.gr. orðist svo:
Framkvæmi aðrir en læknar aðgerðir samkvæmt lögum þessum, skulu þeir sæta fangelsi allt að 4 árum, nema hærri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Hafi verkið verið framið án samþykkis konunnar, skal refsing vera fangelsi ekki skemur en 2 ár, og allt að 12 árum.
Hlutdeildarmönnum skal refsað samkvæmt þessari grein.

Virðingafyllst,

Guðbjörg Pálsdóttir, starfandi formaður
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála