Hjukrun.is-print-version

3. fundur stjórnar Fíh 2016 – 2017

RSSfréttir
17. október 2016

mánudaginn 17. október 2016 kl. 09:30

Mættir:
Anna Guðríður Gunnarsdóttir, Anna Vilbergsdóttir, Anna María Þórðardóttir, Arndís Jónsdóttir, Birgir Örn Ólafsson, Bylgja Kristófersdóttir, Díana Dröfn Heiðarsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir, Helga Bragadóttir, Hlíf Guðmundsdóttir, Ragnhildur Rós Indriðadóttir, Svanhildur Ósk Sigurfinnsdóttir, Svava Björg Þorsteinsdóttir og Þura B. Hreinsdóttir.

Fjarverandi:
Kristín Thorberg og Þóra Jenný Gunnarsdóttir

Á fjarfundi:
Ólöf Árnadóttir

Fundarritari:
Svanhildur Ósk Sigurfinnsdóttir

Gestir:
Aðalbjörg Finnbogadóttir, sviðsstjóri fagsviðs Fíh, Gunnar Helgason, sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs Fíh, Helga Ólafsdóttir, ritstjóri Tímarits íslenskra hjúkrunarfræðinga og Sólveig Stefánsdóttir, fjármálastjóri Fíh.


Til afgreiðslu:
  1. Fundargerð 2. fundar stjórnar Fíh
    Afgreiðsla: Samþykkt.

  2. Fundargerð 2. fundar framkvæmdaráðs Fíh
    Afgreiðsla: Kynnt.


Til umræðu/kynningar:

  1. Fjárhagsáætlun 2017
    Sólveig Stefánsdóttir fjármálastjóri Fíh kynnti fyrir stjórn fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 og rekstur Fíh fram til 1. september 2016.
    Afgreiðsla: Fjárhagsáætlun 2017 var einróma samþykkt.

  2. Staðan í lífeyrissjóðsmálum hjúkrunarfræðinga og samningum
    Gunnar Helgason sviðsstjóri kjarasviðs kynnti stöðu á vinnu við bókun 3, stöðu kjaramála, stofnanasamninga og lífeyrissjóðsmálum hjúkrunarfræðinga.
    • Vinna við bókun 3 er langt komin á Landspítala. Mikil vinna farið fram þar og verður niðurstöðum skilað 20. október. Greiðslur verða eftir stigafjölda frammistöðumats. Kynningarefni á frammistöðumatinu er inn á vefsíðu Fíh (www.hjukrun.is).
    • Farið var yfir samanburð á launum hjúkrunarfræðinga við aðrar stéttir. Út frá þessum tölum má lesa að launabil í dagvinnulaunum milli hjúkrunarfræðinga og annarra stétta með sambærilega menntun og ábyrgð hefur ekki minnkað og sums staðar aukist þrátt fyrir Gerðardóm. Munurinn hefur minnkað í flestum tilfellum varðandi heildarlaun. Má túlka sem svo að einhver tilfærsla hafi átt sér stað úr yfirvinnu í dagvinnu hjá öðrum stéttum á heildarlaunum miðað við aðrar sambærilegar stéttir. Einnig kynnti Gunnar laun hjúkrunarfræðinga eftir stofnunum.
    • Staða stofnanasamninga var kynnt. Verið er að vinna í að semja um stofnanasamninga víða. Á Heilbrigðisstofnun Norðurlands er verið að reyna að sameina 5 stofnanasamninga, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er með stofnanasamning frá 2013 en óánægja er með þann samning. Hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) óskaði Fíh eftir að störf væru stiguð út frá umfangi, en þeirri hugmynd hafnað og viðræðum slitið í kjölfarið en teknir verða upp stofnanasamningar við einstök fyrirtæki innan SFV í staðinn. Einnig eru fyrirhugaðar viðræður við Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
    • Að lokum fór Gunnar yfir stöðu lífeyrismála. Fíh gaf út yfirlýsingu 20. september um frumvarpið og skiluðu inn umsögn, ásamt því að sitja fund með fjárlaganefnd 4 október. Þar sem Fíh er ekki í bandalagi með öðrum stéttafélögum, virðist félagið standa ver að vígi, þegar teknar eru stórar ákvaðanir líkt og með samninginn um lífeyrismál.


    Afgreiðsla: Umræður og mun Gunnar upplýsa stjórn um gang mála á næsta stjórnarfundi.

  3. Fjölgun hjúkrunarfræðinga
    Stjórn ræddi hvernig mögulega megi fjölga hjúkrunarfræðingum í starfi. Eftirtaldar tillögur komu m.a. fram:
    • Halda vinnusmiðjur um stefnumótun í að fjölga hjúkrunarfræðingum til starfa við hjúkrun.
    • Skilgreina hverja þarf að fá með í slíkt verkefni, t.d. stefnumarkandi stofnanir, stjórnmálamenn, menntamálaráðuneytið og velferðarráðuneyti.
    • Fjölga þarf sérfræðingum í hjúkrun. Þeir þurfa að vera sýnilegri og aðgengilegri, þar sem þeir hafa sérþekkingu á sínu sérsviði og því kjörið að nýta þann áhuga til að kynna hjúkrun betur og bæta ímynd hjúkrunarfræðinga.
    • Hafa þarf áhrif á orðræðu í hjúkrun með því að auka jákvæða orðræðu. Þjóðfélagsmál, orðræðan og menning í hjúkrun voru talin stór áhrifaþáttur og kom fram hugmynd um halda málþing um eflingu hjúkrunar þar sem hjúkrunarfræðingar koma saman og ræða um eflingu og framtíð hjúkrunar og auka þar með samheldni hjúkrunarfræðinga.
    • Ræða um hjúkrunarfræðinga sem eina heild þar sem að umræðan er oft um hjúkrunarfræðinga á Landspítala.
    • Kynna áfram starfsemi Fíh fyrir félagsmönnum og auka sýnileika félagsins.
    • Setja af stað smáauglýsingar/myndbönd um hjúkrun sem svipar til þeirra sem Landspítali hefur gert.
    • Skortur er á fjármagni til menntunar fleiri hjúkrunarfræðinga, þarf því að auka fjármagn svo hægt sé að mennta fleiri hjúkrunarfræðinga.
    • Vinna þarf markvisst í því að bæta starfsumhverfi, vinnuaðstöðu og laun hjúkrunarfræðinga til að missa ekki fleiri hjúkrunarfræðinga úr starfi. Hjúkrunarfræðingar eru orðnir langþreyttir af álagi og geta ekki staðið undir því endalaust.
    • Koma á styttri vinnuviku líkt og er í nágrannalöndum okkar.


Til kynningar
  1. Hundrað ára afmæli Fíh 2019
    Aðalbjörg Finnbogadóttir kynnti fyrirhugaða dagskrá í tengslum við 100 ára afmæli Fíh árið 2019. Áætlað er að hafa dagskrá föstudaginn 17. nóvember 2019 í Eldborgarsal Hörpu. Afmælisnefndin þarf að fá fjárhagsáætlun frá stjórn Fíh fyrir verkefnið. Ýmsar hugmyndir eru hjá afmælisnefndinni, m.a. sögusýning, myndasýning, nýr fáni fyrir félagið með réttu stofnári, heiðra félaga fyrir vel unnin störf, sala á minjagripum og stytta af Halldóru konu Vígaglúms. Nefndin er opin fyrir fleiri hugmyndum.
    Afgreiðsla: Stjórn óskar er eftir að afmælisnefndin leggi fram fjárhagsáætlun til stjórnar vegna afmælisins.

  2. Víkkað starfssvið hjúkrunarfræðinga
    Guðbjörg kynnti stöðuna hjá vinnuhópi sem er að skoða víkkað starfssvið hjúkrunarfræðinga. Nefndin hefur í tvígang fundað með fulltrúum í Velferðarráðuneytinu og ljóst er að lyfjalögin munu ekki fara í gegn á þessu þingi. Einnig hefur komið í ljós að í raun eiga hjúkrunarfræðingar að geta víkkað út sitt starfssvið að flestu leyti nema gagnvart ávísun lyfja. Þarf nú að kanna hvernig hægt sé að koma þessu í framkvæmd í samstarfi við háskólana og vinnustaði. Umræður.


Önnur mál
  1. Tímarit hjúkrunarfræðinga
    Helga Ólafsdóttir ritstjóri Tímarits hjúkrunarfræðinga kynnti fyrir fyrirhugaðar breytingar á tímaritinu sem taka í gildi á nýju ári. Raunin er að mjög fáir hlaða niður appinu og ritrýndar greinar passa illa þar inn. Gerð var könnun um tímaritið meðal hjúkrunarfræðinga þar sem um 600 manns svöruðu. Niðurstöður sýndu að um helmingur þátttakenda vildi fá tímaritið á prentuðu formi. Einnig voru óskir um að einstakar greinar yrðu birtar á vef félagsins. Hugmyndin er að fara bil beggja og fækka netútgáfum úr fimm í tvær og gefa út tvær prentútgáfur á ári. Möguleiki er að samnýta haustdreifingu með dagbókinni og væru því prentútgáfur gefnar út í mars og desember ár hvert.
    Afgreiðsla. Umræður voru um tímaritið, fyrirhugaðar breytingar og framtíð þess. Sérstaklega var bent á mikilvægi þess að ritröð og nafn tímaritsins muni ekki riðlast við frekari þróun tímaritsins.

  2. Ný vefsíða Fíh
    Rætt um fyrirhugaðar breytingar á vefsíðu félagsins. Herdís Lilja Jónsdóttir er að vinna endurgerð vefsíðu félagsins. Þann 22. október verður vinnusmiðja þar sem rýnihópur mun fara í flokkunaræfingu og raða síðum á væntanlegum vef í flokka og gefa þeim nafn.

  3. Herferðin „rjúfum hefðirnar“
    Guðbjörg kynnti fyrir stjórn herferðina „rjúfum hefðirnar“ sem Jafnréttisstofa stendur fyrir en hún fékk 3ja milljóna króna styrkveitingu til verkefnisins til að rjúfa kynbundinn launamun og hefur Fíh samþykkt að taka þátt í því verkefni.

  4. Jólakortastyrkur
    Eins og síðustu ár mun Fíh ekki senda félagsmönnum jólakort í ár heldur styrkir félagið árlega eitt málefni fyrir það fé sem myndi annars fara í að senda félagsmönnum jólakort. Stjórnarmenn beðnir um að koma með hugmyndir að málefni og verður ákvörðunin tekin á næsta fundi stjórnar.

  5. Umræður á facebook um sýrlensk börn
    Kynnt innlegg á facebook síðunni Bakland hjúkrunafræðinga. Þar er óskað eftir að félagið fordæmi árásirnar í Sýrlandi og meðferðina á sýrlenskum börnum..
    Afgreiðsla: Fíh mun ekki setja fram stuðningsyfirlýsingu með þessu máli þó allir séu sammála um að umræðuefnið er alvarlegt. Áhersla Fíh er á félagsmenn, skjólstæðinga þeirra í starfi og veitta hjúkrun á Íslandi. Guðbjörg mun hafa samband við við viðkomandi hjúkrunarfræðing og gera grein fyrir niðurstöðunni.

Fundi slitið kl. 14:30
Svanhildur Ósk Sigurfinnsdóttir, ritari stjórnar Fíh.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála