Er þörf á þessum þvaglegg? Notkun þvagleggja og þvagfærasýkingar þeim tengdar á skurðlækninga- og lyflækningadeildum Landspítala fyrir og eftir íhlutun
Hildur Einarsdóttir, Landspítala
Katrín Blöndal, Landspítala og Háskóla Íslands
Brynja Ingadóttir, Landspítala og Háskóla Íslands
Elín J. G. Hafsteinsdóttir, Landspítala
Dóróthea Bergs, Landspítala
Guðbjörg Guðmundsdóttir, Landspítala
Ingunn Steingrímsdóttir, Landspítala
Sigrún Rósa Steindórsdóttir, Landspítala
Tilgangur: Spítalasýkingar eru vaxandi vandamál víða um heim. Um 40% spítalasýkinga eru þvagfærasýkingar og rekja má 80% þeirra til inniliggjandi þvagleggja. Tilgangur rannsóknarinnar var að greina notkun þvagleggja og tíðni þvagfærasýkinga, sem þeim tengjast, fyrir og eftir íhlutun á skurðlækninga- og lyflækningadeildum Landspítala.
Aðferðir: Framvirk og lýsandi samanburðarrannsókn á 17 legudeildum. Úrtakið var allir sjúklingar sem lögðust inn á rannsóknartímabilunum og fengu þvaglegg á tveimur fjögurra vikna tímabilum, annars vegar fyrir íhlutun (T1) og hins vegar ári eftir íhlutunina (T2). Íhlutunin fól í sér útgáfu nýrra verklagsreglna um þvagleggi og fræðslu um gagnreynda notkun þeirra til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á þátttökudeildum. Gögnum var safnað á þessum tímabilum um ábendingar fyrir ísetningu þvagleggs, ábendingar fyrir áframhaldandi notkun hans, sýkingareinkenni og þvagræktanir.
Niðurstöður: Af sjúklingum, sem voru lagðir inn á skurðlækningadeildir, fengu 33% þvaglegg á hvoru tímabili og var meirihluti settur á skurðstofu á báðum tímabilum. Af sjúklingum á lyflækningadeildum fengu 11% þvaglegg á hvoru tímabili, flestir á legu-, dag- eða göngudeildum á báðum tímabilum. Ábendingar voru til staðar fyrir uppsetningu þvagleggja í flestum tilvikum á bæði skurðlækninga- og lyflækningadeildum. Hlutfall þvagleggsdaga án ábendinga lækkaði á milli tímabila bæði á skurðlækningadeildum (p<0,01) og á lyflækningadeildum (p=0,01). Hlutfall sjúklinga sem útskrifuðust með þvaglegg lækkaði á skurðlækningadeildum (p=0,05) en ekki á lyflækningadeildum (p=0,19). Ekki varð marktæk breyting á fjölda þvagfærasýkinga á deildunum.
Ályktun: Íhlutun um markvissa notkun þvagleggja skilaði árangri þar sem hlutfall þvagleggsdaga án gildra ábendinga lækkaði, bæði á skurðlækninga- og lyflækningadeildum og sjúklingum sem útskrifuðust með þvaglegg fækkaði á skurðlækningadeildum. Til að draga enn frekar úr ónauðsynlegri notkun inniliggjandi þvagleggja þarf að beina íhlutun að þeim deildum þar sem ákvörðun er tekin um ísetningu og tryggja að starfsfólk á deildum taki daglega ígrundaða afstöðu til þess hvort þörf sé á þvagleggnum. Bæta þarf skráningu um notkun þvagleggja.
Lykilorð: Fræðsla, þvagfærasýkingar tengdar þvagleggjum, ábendingar, þvagleggir, gagnreyndar leiðbeiningar.