Hjukrun.is-print-version

Umsögn um fæðingar- og foreldraorlof

RSSfréttir
28. febrúar 2017
Reykjavík 27. febrúar 2017

Nefndarsvið Alþingis

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) tekur undir með flutningsmönnum að lengja þurfi fæðingar- og foreldraorlof í 12 mánuði enda sé um mikilvægt velferðarmál ungra fjölskyldna að ræða, ekki hvað síst ungbarnanna.

Í 2. gr. laganna segir að markmið þeirra sé að tryggja barni samvistir við báða foreldra. Þá er þeim einnig ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Í breytingatillögum frumvarpsins er gert ráð fyrir því að fæðingar-og foreldraorlof lengist í skrefum og verði 12 mánuðir árið 2019. Gert er ráð fyrir að hvort foreldri eigi sjálfstæðan rétt í allt að fimm mánuði og sé sá réttur ekki framseljanlegur.
Með þessu er sýnt að lögin munu leggja megin áherslu á jafnréttissjónamið varðandi atvinnuþátttöku foreldra fremur en að tryggja barninu lengri samvistir við foreldra sína. Tilgangurinn verður því ekki fyrst og fremst velferð barnsins heldur er þörfum þess fórnað fyrir að að reyna að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sýnt hefur verið fram á, með ýmsum rannsóknum, mikilvægi tengslamyndunar barna og foreldra í upphafi fyrir heilbrigði barnsins síðar á ævinni.

Fíh ítrekar að ekki megi ganga á rétt barnsins sem greinilega er gert ef réttur annars foreldris verður ekki gerður að hluta eða öllu leyti framseljanlegur. Barnið mun þá tapa 5 mánuðum í samvistum við foreldra sína ef annað foreldrið af einhverjum orsökum, öðrum en talið er upp í frumvarpinu, getur ekki tekið 5 mánuði í fæðingar- eða foreldraorlof. Barninu er þá einungis tryggðar samvistir við foreldra sína í mesta lagi í 7 mánuði í allt. Fíh telur að með þessu móti sé velferð barnsins ekki höfð í fyrirrúmi.

Fíh gerir eftirfarandi breytingartillögu við 8. gr. laganna:
Í stað orðanna „Þessi réttur er ekki framseljanlegur“ komi „Hægt er að framselja rétt þennan til hins foreldrisins um allt að þrjá mánuði.“


Virðingafyllst,

Guðbjörg Pálsdóttir starfandi formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála