Reykjavík 9. mars 2017
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis
Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis), 106. mál.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) er mótfallið því að afnema þá sérstöku stofnun, ÁTVR, sem sinnir smásölu áfengis í dag skv. lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011 og færa smásöluna yfir í matvöruverslanir.
Slík aðgerð er í andstöðu við bætta lýðheilsu þjóðarinnar og samræmist ekki stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartar framtíðar en þar kemur fram að heilbrigðismál verði forgangsmál ríkisstjórnarinnar og lögð er áhersla á að bætta lýðheilsu og að stuðla að heilbrigði landsmanna.
Aukið aðgengi að áfengi stuðlar hvorki að bættri lýðheilsu né heilbrigði landsmanna. Ótal alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að afnám einkasölu og aukið aðgengi að áfengi hafi í för með sér hið gagnstæða þ.e. aukna notkun sem leiðir til aukinna heilbrigðis- og félagslegra vandamála og kostnaðar fyrir samfélagið.
Fíh gerir sérstaka athugasemd við 23. gr. frumvarpsins en þar er lagt til að heimilt sé að auglýsa áfengi með þeim takmörkunum sem fram koma í lögunum. Fíh er algerlega á móti því að banni við hvers konar auglýsingum á áfengi sé afnumið.
Að lokum vill Fíh ítreka fyrri umsagnir um sama efni frá árunum 2016 og 2014 en þar kemur fram skýr afstaða félagsins gegn umræddum breytingum á núgildandi lögum um verslun með áfengi og tóbaki og áfengislögum.
Virðingafyllst,
Guðbjörg Pálsdóttir starfandi formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga