Hjukrun.is-print-version

Notkun FINDRISK-matstækisins til að meta hættu á sykursýki af tegund 2

RSSfréttir
3. maí 2017

Megindleg rannsókn


Jóhanna Margrét Ingvadóttir, Háskólanum á Akureyri
Árún K. Sigurðardóttir, Háskólanum á Akureyri


Tilgangur: Sykursýki af tegund 2 hefur hingað til verið algengari meðal aldraðra heldur en ungra, en á undanförnum árum hefur sjúkdómurinn greinst mun oftar hjá ungu fólki en áður var. Með því að skima eftir áhættu á sykursýki 2 samhliða fræðslu um lífsstílsbreytingar
má draga úr tíðni á sykursýki 2. Matstækið „The Finnish Diabetes Risk Score“ (FINDRISK) greinir hættuna á að fá sykursýki 2 á næstu 10 árum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna: a) hve stórt hlutfall af ákveðnu úrtaki er í hættu á að fá sykursýki 2, b) að fá upplýsingar um hagnýtt notagildi FINDRISK-matstækisins.

Aðferð: Aðferðin var lýsandi þversniðsrannsókn. Starfsmenn ákveðins fyrirtækis (n=150) fengu boð um að taka þátt í rannsókninni, skilyrði úrtaksins uppfylltu 117 einstaklingar, 82 þeirra samþykktu þátttöku, svarhlutfall var 70%. Matstækið FINDRISK var lagt fyrir og mælingar á hæð, þyngd, ummáli mittis, blóðsykri og blóðþrýstingi voru framkvæmdar og líkamsþyngdarstuðull reiknaður. FINDRISKmatstækið samanstendur af 8 spurningum og stigafjölda frá 0 til 21. Fleiri stig þýða aukna áhættu, viðmiðunargildið ≥9 stig gefurtil kynna aukna áhættu á að fá sykursýki af tegund 2. Lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði var notuð við úrvinnslu gagna.

Niðurstöður:
 Meðalaldur þátttakenda var 42,6 (sf 15,0) ár og 27 einstaklingar (32,9%) voru með ≥9 stig á FINDRISK-matstækinu og teljast því í aukinni hættu á að fá sykursýki af tegund 2 á næstu 10 árum. Marktækt fleiri konur (42,2%) en karlar (18,9%) reyndust vera í aukinni hættu á að fá sykursýki af tegund 2 (p=0,03). Meðalaldur þeirra sem voru með ≥9 stig var 50,8 (sf 14,3) ár en þeirra sem voru með ≤8 stig var 38,7 (sf 13,4) ár(p>0,001). Aðhvarfsgreining sýndi að hærri blóðsykur og hærri slagbilsþrýstingur hafa marktæk áhrif á heildarstigafjölda.

Ályktanir: FINDRISK-matstækið er hentugt til að skima eftir hættu á að fá sykursýki 2 og er auðvelt í notkun. Þörf er á reglulegri skimun og faglegriráðgjöf frá hjúkrunarfræðingum til þeirra sem eiga á hættu að fá sykursýki 2.

Lykilorð: Sykursýki af tegund 2, FINDRISK-matstækið, skimun, forvarnir, fræðsla

1. tbl. 2017: Notkun FINDRISK-matstækisins til að meta hættu á sykursýki af tegund 2: Megindleg rannsókn
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála