Fundur formanna fagdeilda og fagsviðs Fíh miðvikudaginn 1. febrúar 2018 kl. 13:00-15:30.
Mættir:
Rebekka Rós Þorsteinsdóttir fagdeild svæfingahjúkrunarfræðinga, Steinunn Sigurðardóttir Öldungadeild, Hlíf Guðmundsdóttir fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga, Þóranna Tryggvadóttir Innsýn, Jónína Sigurgeirsdóttir fagdeild lungnahjúkrunarfræðinga, Marianne Klinke fagdeild vísindarannsakenda, Sigríður Guðjónsdóttir fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga, Ingibjörg Tómasdóttir fagdeild hjúkrunarstjórnenda, Ásta Thoroddsen fagdeild um upplýsingatækni, Jóhanna Sveinsdóttir fagdeild bæklunarhjúkrunarfræðinga, Sigríður Árna Gísladóttir fagdeild gjörgæsluhjúkrunarfræðinga, Hulda G. Valdimarsdóttir fagdeild þvagfærahjúkrunarfræðinga, Karitas Gunnarsdóttir fagdeild barnahjúkrunarfræðinga, Margrét Björnsdóttir fagdeild nýrnahjúkrunarfræðinga, Sólveig Klara Káradóttir fagdeild um viðbótarmeðferð,Guðbjörg Pálsdóttir formaður Fíh og Aðalbjörg J. Finnbogadóttir sviðstjóri fagsviðs Fíh.
Gestir fundarins:
Herdís Lilja Jónsdóttir vef-og verkefnastjóri Fíh og Helga Ólas ritstjóri Tímarits hjúkrunarfræðinga.
Dagskrá:
- Nýjar fagdeildir boðnar velkomnar
Þrjár nýjar fagdeildir hafa verið stofnaðar frá síðasta fundi fagdeilda. Fagdeild bæklunarhjúkrunarfræðinga, sérfræðinga í hjúkrun og vísindarannsakenda.
- Tímarit, vefur og samskiptamiðlar
Helga ritstjóri sagði frá því að nú eru gefin út tvö prentuð blöð á ári þ.e. vor og haust auk rafrænna aukablaða. Hvatti hún formennina til að senda inn greinar frá málþingum og fræðslufundum sínum, kynningu á BS og MS verkefnum tengdum fagdeildum og hafa t.d. fagdeild mánaðarins til að lyfta á vefsvæði félagsins. Fyrir fagdeild mánaðarins þarf að útbúa sniðmát. Herdís ítrekaði það að formennirnir færu yfir sínar síður á vefnum, uppfærðu þær og settu inn það sem vantaði t.d. vantar starfsreglur hjá nokkrum fagdeildum. Hún bauð einnig aðstoð við að setja upp basecamp fyrir stjórnir fagdeilda.
- Styrkir til fagdeila
a. Endurskoðun almennra styrkja til fagdeilda
Stjórn félagsins samþykkti á fundi sínum 5. desember sl. að hækka árlega styrki til starfsemi fagdeilda upp að 300 þúsund krónur. Þessi hækkun tók gildi fyrir árið 2018.
b. Viðbótarstyrkur
Viðbótarstyrkurinn er óbreyttur þ.e. kr. 200.000 og þarf að sækja um hann sérstaklega. Þær breytingar sem gerðar voru hvað þennan styrk varðar eru að framvegis getur fagdeild sem á undir 500.000 krónum í lok starfsárs sótt um viðbótarstyrkinn í stað 300.000 króna áður.
- Aðalfundur Fíh
Aðalfundur Fíh verður haldinn fimmtudaginn 24. maí á Grand hóteli kl. 19:00-22:00. Tillögur til lagabreytinga og efni sem óskast tekin fyrir á aðalfundinum þurfa að berast stjórn Fíh fjórum vikum fyrir fundinn eða fyrir 26. apríl. Viku fyrir fundinn verða fundargögn kominn inn á vefsvæðið eða 17. maí og fyrir þann tíma þurfa félagsmenn að skrá sig á aðalfundinn til að fá atkvæðisrétt á fundinum.
- Ársskýrslur fagdeilda
Ársskýrslur fagdeilda þurfa að berast Aðalbjörgu adalbjorg@hjukrun.is fyrir lok mars mánaðar samkvæmt lögum félagsins. Sniðmát fyrir ársskýrsluna er að finna á vefsvæði félagsins. Aðalbjörg ítrekaði að fagdeildir tilkynni henni um breytingar á stjórnum fagdeilda ef einhverjar verða á aðalfundunum sem framundan eru.
- Starfsreglur fagdeilda
Ákveðið var að Marianne Klinke, Sigríður Guðjónsdóttir og Aðalbjörg Finnbogadóttir mynduðu starfshóp til að endurskoða starfsreglur fagdeilda. Aðalbjörg mun boða fyrsta fund starfshópsins í febrúar.
- 100 ára afmæli félagsins 2019.
Steinunn Sigurðardóttir formaður Öldungadeildar og undirbúningsnefndar afmælisins kynnti fyrirhugaða dagskrá á 100 ára afmælisári félagsins 2019. Hugmyndir undirbúningsnefndar eru m.a. að fá fagdeildir og landsvæðadeildir til að taka þátt í þeirri dagskrá með því að vera með afmælisfagnað fyrir sína félagsmenn í mars 2019 t.d. viðameiri fræðslu eða aðalfundi. Einnig kæmi frá þeim viðburðir í október þar sem þær kynntu sína sérgrein fyrir almenningi og verði t.d. með opið hús fyrir almenning, skrif í dagblöðin, kynningar á ljósvakamiðlum eða eitthvað í þeim dúr.
Í framhaldinu var rætt um hvort fagdeildirnar gætu tekið að sér að skrifa greinar í blöðin yfir allt árið þannig að það væri a.m.k. ein grein frá einhverri fagdeildinni í hverjum mánuði allt árið.
Þá var rætt um mikilvægi þess að gera hjúkrun og hjúkrunarfræðinga meira sýnilega á afmælisárinu með því t.d. að segja frá góðum fréttum af hjúkrun, fá nemendur í hjúkrunarfræði til að kynna hjúkrun í grunn-og framhaldsskólum, gera "Krossgötur" 4ða árs hjúkrunarfræðinema í HÍ meira sýnilega t.d með því að halda þann viðburð á Háskólatorgi, taka þátt í Vísindadögum HÍ sem er viðburður fyrir almenning, tengja félagið Háskóla ungafólksins og vera sýnileg á samfélagsmiðlum, instagram, snappi o.þh.
- Nýr fulltrúi á skrifstofu Fíh kynntur.
Guðrún Andrea Guðmundsdóttir fulltrúi sem hefur þjónustað fagdeildar félagsins hætti störfum 1. febrúar s.l. Í hennar stað var ráðin Margrét Rafnsdóttir og mun hún taka við hlutverki Guðrúnar hvað varðar fagdeildirnar.
- Skjalavarsla fagdeilda
Verið er að vinna að nýju skjalvörslukerfi fyrir félagið. Í framhaldi verður skoðað hvernig vista eigi skjöl fagdeilda.
Umræður um málefni fagdeilda
- Kynning á störfum fagdeilda
- Rætt var um ýmis konar samvinnu milli fagdeilda eins og til dæmis að samnýta erlenda fyrirlesara sem eru hér á landi.
- Rætt um að koma upp fyrirlesarabanka sem fagdeildirnar gætu gengið í.
- Marianne benti á mikilvægi þess að hafa smá kynningu á hverri fagdeild á ensku á vefsvæði félagsins. Það auðveldaði og yki líkur á erlendu samstarfi.
- Steinunn sagði frá því að í Öldungadeildinni væru 480 félagsmenn. Ekki eru rukkuð félagsgjöld fyrir 60 ára og eldri í deildinni.
Önnur mál
Engin mál voru á dagskránni undir önnur mál.
Fleira ekki gert. Fundi slitið 15:30.
Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, sviðstjóri fagsviðs Fíh.