Reykjavík 7. mars 2018
Nefndarsvið Alþingis
Umsögn um tillögu til þingsályktunar um notkun og ræktun lyfjahamps.
þingskjal 18 - 18. mál.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga í Fíh telja ótímabært að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem heimilar notkun og framleiðslu kannabis eða hampjurtar.
Af texta þingsályktunartillögunnar og greinagerðarinnar sem fylgir má ráða að verið sé að opna fyrir almenna notkun og ræktun kannabis hér á landi. Þá er þar einnig talað um að lyfjahampur hafi notagildi í meðferð gegn krabbameini, taugasjúkdómum og öðrum alvarlegum sjúkdómum sem ekki er raunin. Skortur er á vönduðum vísindarannsóknum þar sem gagnsemi kannabis við ýmsum einkennum er könnuð.
Til eru fáar vandaðar rannsóknir er sýna fram á gagnsemi lyfjahamps við þeim kvillum sem haldið er fram að lyfið virki á. Vandaðar rannsóknir hafa ekki sýnt fram á mikinn ávinning fyrir krabbameinssjúklinga. Þá getur lyfið haft margvíslegar alvarlegar aukaverkanir líkt og önnur lyf. Ekki er t.d. minnst á kannabis í nýuppfærðum klínískum leiðbeiningum Landspítala um líknarmeðferð.
Fíh og fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga leggja áherslu á að krabbameinssjúklingar fái bestu mögulegu þjónustu sem er byggð á gagnreyndri þekkingu en í þessu tilfelli virðist hún vera af skornum skammti. Af því leiðir að telja verður þessa tillögu ekki tímabæra. Auk þess þarf að gera skýrari greinarmun á læknaávísuðu kannabis í lyfjaformi annars vegar og kannabis ræktun og reykingum almennings hins vegar.
Virðingafyllst,
Guðbjörg Pálsdóttir formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga