Hjukrun.is-print-version

9. fundur stjórnar Fíh 2017 – 2018

RSSfréttir
8. maí 2018
þriðjudagur 8. maí 2018 kl. 10:30-16:00

Mættir: Arndís Jónsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir, Díana Dröfn Heiðarsdóttir, Guðrún Yrsa Ómarsdóttir, Hildur Björk Sigurðardóttir, Halla Eiríksdóttir, Anna María Þórðardóttir og Þura B. Hreinsdóttir.

Boðuð forföll: Helga Bragadóttir.Gestir: Sólveig Stefánsdóttir fjármálastjóri Fíh, Sigrún Guðmundsdóttir og Örvar Ólafsson endurskoðendur BDO, Gunnar Helgason sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs, Aðalbjörg Finnbogadóttir, sviðsstjóri fagsviðs og Herdís L. Jónsdóttir, vef- og verkefnastjóri, Eva Hjörtína Ólafsdóttir kjararáðgjafi.

Til afgreiðslu:

  1. Fundargerð 7. og 8. fundar stjórnar Fíh
    Afgreiðsla: Samþykktar.

Til umræðu:

  1. Endurskoðun ársins 2017
    Sólveig Stefánsdóttir fjármálastjóri Fíh og endurskoðendur BDO, Sigrún Guðmundsdóttir og Örvar Ólafsson fóru yfir ársreikninga og niðurstöður endurskoðunar ársins 2017. Endurskoðendur höfðu engar athugasemdir við fjárhag eða rekstur félagsins. Helsta breytingin á þessum ársreikningi er breytt framsetning og aðferð við afskriftir á fastafjármunum félagsins sem leiðir til þess að betri mynd hefur fengist á verðmætum félagsins.
    Afgreiðsla: Ársreikningar síðasta starfsárs samþykktir.

  2. Staða kjaramála
    Gunnar Helgason sviðstjóri kjara- og réttindasviðs kynnti tvö mál, annars vegar mál hjúkrunarforstjóra á hjúkrunarheimili sem félagið stendur í málarekstri fyrir og hins vegar stöðu kjaramála.
    a) Mál fyrrverandi hjúkrunarforstjóra á hjúkrunarheimili.
    Málið snýst um fyrirvaralausa ólöglega uppsögn hjúkrunarforstjóra. Að mati Fíh og lögmanns félagsins er um ólöglega uppsögn að ræða. Búið er að stefna í málinu og er ein af málsástæðum félagsins að um aðilaskipti sé að ræða og því hafi uppsögnin verið óheimil. Til þess að fá úr því skorið hvort að um aðilaskipti sé að ræða þarf að úrskurð dómara í málinu. Málrekstur hefur gengið seint en dómari hefur gefið út að hann muni ekki af sjálfdáðum óska eftir ráðgefandi áliti. Því þarf lögmaður að óska eftir þessu fyrir hönd hjúkrunarforstjóra. Stjórn Fíh þarf því að taka ákvörðun um hvort að stutt sé að óskað sé eftir ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins um málið. Ef álitið er í samræmi við álit lögmanns er það mjög hagstætt máli hjúkrunarforstjóra. Ef ekki þá tapar það ekki málinu, aðrar ástæður gætu gengið. Ekki er möguleiki á gjafsókn nema viðkomandi bæjarfélag sem stefnt er óski eftir því en það hefur ekki verið gert. Áætlað er að kostnaður vegna málssóknar geti tvöfaldast vegna þessa.
    Afgreiðsla: Málið rætt ítarlega og var það samþykkt samhljóða af stjórn að félagið styðji að óskað verði eftir ráðgefandi áliti. Stjórn beinir því til kjarasviðs að skoðað verði til hlítar hvort hægt sé að leita sátta í málinu.
    b) Staða kjaramála.
    Staða kjaramála hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu taka mið af því að miðlægur kjarasamningur hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu er bundinn í gerðardómi til mars 2019. Fljótlega í haust mun fara af stað undirbúningur fyrir miðlæga kjarasamninga á vormisseri 2019. Áfram virðist vera mikill skortur á hjúkrunarfræðingum til starfa. Fréttir berast af því að erfiðlega gangi að ráða í afleysingar fyrir sumartímann. Vinna við stofnanasamninga er í gangi á nokkrum heilbrigðisstofnunum. Samningaviðræður við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa verið í gangi lengi en lítið þokast, samningaviðræður við Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Suðurnesja og Sjúkrahúsið á Akureyri eru í startholunum en óvíst er hvaða árangur mun nást. Fullur skilningur er hjá stofunum að vinna þarf að bættum kjörum hjúkrunarfræðinga, yfirlýsingar frá heilbrigðisráðherra liggja fyrir um að bæta þurfi kjörin en lítið ber á beinum aðgerðum. Hekluverkefni Landspítala sem gengur út að greidd eru hærri grunnlaun fyrir aukið starfshlutfall, viðbragðsvaktir og styttri vinnutíma er í fullum gangi á Landspítala þar sem um 30 deildir eru komnar í verkefnið og um helmingur hjúkrunarfræðinga sem voru markhópurinn í verkefninu. Tortryggni hefur verið meðal hjúkrunarfræðinga í garð verkefnisins en vísbendingar eru um að hjúkrunarfræðingar séu að átta sig á ábata verkefnisins. Bókun 3 sem gengur út á að auka virkni stofnanasamninga með áherslu á frammistöðu verður komið inn á allar stofnanir á þessu ári. Því miður hafa stofnanir margar hverjar verið tregar til að fara leið Landspítala og innleiða frammistöðumat. Flestar stofnanir vilja fara þá leið að greiða öllum hjúkrunarfræðingum jafna greiðslu. Mestu virðist ráða þar að stofnanir treysta sér ekki í verkefnið og velja því þessa leið

  3. Aðalfundur Fíh 24. maí 2018
    Aðalbjörg Finnbogadóttir, sviðsstjóri fagsviðs og Herdís L. Jónsdóttir, vef- og verkefnastjóri fóru yfir dagskrá aðalfundar Fíh 25. maí næstkomandi. Breytingar voru gerðar á dagskránni. Stjórn bætti við lið undir fjárhagsáætlun Fíh þar sem félagsmenn munu kjósa um laun stjórnar Fíh og nefnda/stjórna. Stjórn Fíh vill með þessu auka enn frekar gegnsæi í fjármálum félagsins.

  4. Samtal við #metoo – aðkoma og ábyrgð Fíh
    Eva Hjörtína Ólafsdóttir kjararáðgjafi ræddi um aðkomu og ábyrgð Fíh tengt #metoo verkefninu. Eva Hjörtína sem er einnig verkefnastjóri vinnuhóps á vegum Fíh sem hóf störf í kjölfar #metoo byltingarinnar. Vinnuhópurinn telur eðlilegt að aðkoma Fíh að slíkum málum sé í samvinnu við önnur stéttarfélög og vinnustaði hjúkrunarfræðinga. Ábyrgðin á því að taka á slíkum málum innan vinnustaða sé hinsvegar ávalt vinnustaðarins. Ábyrgð stéttarfélaga eins og Fíh sé að fylgja eftir hvað vinnustaðir hjúkrunarfræðinga séu að gera í þessum málum og hvort þeir séu með aðgerðaráætlun tengt kyndbundnu ofbeldi og úrvinnslu slíkra mála innan vinnustaðarins. Eva mun leiða áframhaldandi vinnu um málefnið innan Fíh og vera í góðum tengslum við önnur stéttarfélög.

  5. Umsókn um viðbótarstyrk til fagdeilda
    Fagdeild gjörgæsluhjúkrunarfræðinga hefur sótt um viðbótarstyrk til fagdeilda.
    Afgreiðsla: Umsóknin skoðast samþykkt með fyrirvara um að umsóknin uppfylli skilyrði.

  6. Fjölgun karlmanna í hjúkrun
    Rætt var um framhald verkefnisins „Karlmenn hjúkra“. Stjórn er sammála um að opna verði frekar á umræðuna um karla í kvennastéttum almennt og hvað hægt sé að gera til að fjölga karlmönnum í hjúkrun. Ljóst er að mikið misræmi er á hlutföllum karla og kvenna við hjúkrunarstörf og nauðsynlegt sé að fjölga karlmönnum í hjúkrun. Þá sé fyrst og fremst verið að horfa í mikilvægi karla í hjúkrun til að auka fjölbreytileika innan stéttarinnar og það sé réttur skjólstæðinga hjúkrunarfræðinga að þeir geti notið þjónustu hjúkrunarfræðinga af báðum kynjum.
    Afgreiðsla: Stjórn samþykkir að verkefninu „Karlmenn hjúkra“ verði haldið áfram.

  7. Ársskýrsla Fíh 2017-2018
    Aðalbjörg Finnbogadóttir, sviðsstjóri fagsviðs og Herdís L. Jónsdóttir, vef- og verkefnastjóri kynntu drög að nýbreytni hjá Fíh en það er útgáfa ársskýrslu Fíh sem verður nú gefin út í fyrsta skipti og dreift til félagsmanna á aðalfundi. Mikil vinna hefur farið í hönnun og innihald skýrslunnar. Mikil ánægja er með útkomuna.

  8. Starfsemi og starfsmannahald skrifstofu Fíh
    a) Starfsmenn Fíh hafa fundað með innanhúshönnuði með það að markmiði að skapa notalegra rými bæði fyrir félagsmenn og starfsmenn. Markmiðið er að nýta svæðið betur og huga að vinnuaðstöðu starfsmanna sem og upplifun félagsmanna þegar þeir sækja þjónustu til Fíh. Farið var yfir teikningar af nýju útliti og stjórn upplýst um hvernig ráðgjafavinnan stendur.
    Afgreiðsla: Formaður mun upplýsa stjórn um framgang mála.
    b) Auglýst hefur verið 100% staða sviðsstjóra fagsviðs og sérfræðings í kjaramálum. Umsóknarfrestur er til 17. maí og verður úrvinnsla umsókna í höndum Guðbjargar Pálsdóttur og utanaðkomandi aðila.
    Afgreiðsla: Formaður mun upplýsa stjórn um framgang mála.

 

Til kynningar:

  1. Könnun meðal félagsmanna - Maskínuskýrsla
    Samantekt á niðurstöðum maskínu rannsóknarinnar (nóvember 2017) á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga verða gerð góð skil í næsta tímariti Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

 

Önnur mál

    11. 100 ára afmælisár Fíh
    Boðað hefur verið til fundar með formanni Fíh og formanni hátíðar- og afmælisnefndar. Ljóst er að hátíðarnefndin mun þurfa meira fjármagn við undirbúning 100 ára afmælis Fíh árið 2019. Skipulagning er nú þegar hafin og verður stjórn upplýst reglulega um gang mála.

 

Stjórnarfundi slitið kl. 16.00

Aðalfundur Fíh verður haldinn 24. maí næstkomandi.


Hildur Björk Sigurðardóttir, ritari Fíh

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála