Rannsókn á vinnu og vinnuumhverfi sjúkraliða á bráðalegudeildum Landspítala
Alda Ásgeirsdóttir, Landspítala og Háskólanum í Reykjavík
Helga Bragadóttir, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Mannauður í hjúkrun er dýrmætur. Síðustu áratugi hefur þörf fyrir heilbrigðisstarfsfólk vaxið stöðugt og krafan um nýtingu fjármuna og mannauðs orðið háværari. Leita þarf leiða til að nýta betur þann mannafla sem fyrir er í heilbrigðisþjónustunni.
Markmið þessarar rannsóknar, sem gerð er grein fyrir hér, var að kanna reynslu sjúkraliða af vinnu og vinnuumhverfi sínu og hvað betur má fara svo veita megi sjúklingum skilvirkari hjúkrun. Notuð var eigindleg rannsóknaraðferð þar sem myndaðir voru þrír rýnihópar og rætt var við 21 sjúkraliða á bráðalegudeildum Landspítala.
Greind voru þrjú þemu sem lýsa reyslu þátttakenda: 1) samstarf og nýting þekkingar; 2) styðjandi vinnuumhverfi; 3) umfang starfs. Þær tilvísanir, sem fram komu í svörum þátttakenda og liggja til grundvallar þemunum, voru flokkaðar í: a) samstarf, b) verkferla,
c) húsnæði, d) aðföng, e) sjúklinga. Þátttakendur skynjuðu álag í vinnu sinni og bentu á þætti sem betur mættu fara. Þeir lýstu misræmi í starfskröfum eftir því hvaða hjúkrunarfræðingur var á vakt og fannst að vinnan væri ekki í fullu samræmi við nám þeirra.
Þátttakendum fannst skorta á stoðþjónustu þar sem þeir eyddu oft miklum tíma í að flytja sjúklinga á milli deilda, svara í síma og vinna í býtibúri, allt verkefni sem í flestum tilfellum krefjast ekki fagþekkingar sjúkraliða. Töluverður tími fór í að leita að tækjum
til aðstoðar við umönnun sjúklinga. Skynjun þátttakenda var að hjúkrunarþyngd væri að aukast þar sem sjúklingar eru eldri, veikari, eiga oftar við fíkniefnavanda og ofþyngd að stríða og eru oftar fórnarlömb ofbeldis en áður. Flestir þátttakendur voru sammála
um að margt í vinnuumhverfinu væri jákvætt og að stuðningur við starfsfólk væri töluverður.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að bæta megi vinnu og vinnuumhverfi sjúkraliða á bráðalegudeildum með tilliti til samstarfs og nýtingar mannaflans, styrkjandi vinnuumhverfis og umfangs og veikinda sjúklinga.
Lykilorð: Vinna, vinnuumhverfi, sjúkraliði.
5.tbl. 2011: Rannsókn á vinnu og vinnuumhverfi sjúkraliða á bráðalegudeildum Landspítala