Heilbrigðisstarfsfólk hjúkrunardeilda á landsbyggðinni
Hallfríður Eysteinsdóttir, Landspítala – háskólasjúkrahúsi
Hermann Óskarsson, Háskólanum á Akureyri
Ragnheiður Harpa Arnardóttir, Háskólanum á Akureyri og Sjúkrahúsinu á Akureyri
Rannsóknir sýna að stjórnunarhættir hafa áhrif á starfsánægju og þjónustuna sem veitt er á heilbrigðisstofnunum. Enn fremur hefur verið sýnt fram á að starfsánægja hafi áhrif á heilbrigði starfsfólks og að skipulagsbreytingar og sparnaðaraðgerðir geta haft neikvæð áhrif á starfsánægju og líðan. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna líðan starfsfólks hjúkrunardeilda meðalstórra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og viðhorf þess til stjórnunar. Könnuð voru tengsl starfsánægju, líðanar starfsfólks og stjórnunarlegra þátta og athugað hvort munur væri á landshlutum og ólíkum starfsstéttum. Rannsóknin var lýsandi spurningakönnun meðal allra (410) hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og aðstoðarfólks í hjúkrun á 14 hjúkrunardeildum utan höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar. Svarhlutfall var 74%. Spurt var um starfsánægju, líðan, samstarf og viðhorf til stjórnunar og yfirmanna. Líðan í starfi var metin með kulnunarkvarða Maslachs (MBI-GS). Gagnaöflun fór fram frá nóvember 2009 til janúar 2010. Yfirgnæfandi meirihluti svarenda var ánægður í vinnunni (90%) og 69% hugðust vera á sama vinnustað næstu ár. Þrír af hverjum fjórum voru ánægðir með næsta yfirmann sinn og vinnuaðstöðu, en einungis 47% með æðstu yfirmenn stofnunar. Langflestir (74%) voru óánægðir með laun sín.
Þriðjungur svarenda hafði orðið var við einelti á vinnustaðnum. Kulnun mældist lítil, þ.e. tilfinningaþrot 6,79 (±4,5), hlutgerving 5,71 (±4,7) og starfsárangur 22,77 (±5,2). Marktæk tengsl voru milli líðanar í starfi og viðhorfa til starfs og stjórnunar, einkum varðandi tilfinningaþrot (R2 = 0,23, p<0,001). Á Suður- og Vesturlandi mældist almennt meiri óánægja og vanlíðan í vinnu en á Norður- og Austurlandi. Munur á starfsstéttum var lítill en kom þó fram varðandi líðan og afstöðu til stjórnunar í nokkrum atriðum.
Niðurstöðurnar sýna að starfsfólk hjúkrunardeilda á landsbyggðinni er almennt ánægt í vinnunni og kulnunar gætir lítið þrátt fyrir mikið vinnuálag, óánægju með laun og sparnaðartengdar breytingar undanfarin ár. Talsverður munur er á landshlutum en minni eftir starfsstéttum. Starfsánægja og líðan tengjast viðhorfum til stjórnunar og huga ber að markvissari stjórnun, ekki síst í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Lykilorð: Landsbyggð, heilbrigðisstarfsfólk, stjórnun, starfsánægja, líðan í starfi.
3.tbl. 2013: Heilbrigðisstarfsfólk hjúkrunardeilda á landsbyggðinni: Viðhorf til stjórnunar og líðan í starfi