Hjukrun.is-print-version

Lyfjavinna hjúkrunarfræðinga og lyfjaöryggi

1. tbl. 2018
Arndís Embla Jónsdóttir, Elín María Gunnardóttir og Magali Brigitte Mouy

Höfundar: Arndís Embla Jónsdóttir, Elín María Gunnarsdóttir og Magali Brigitte Mouy

Í mars síðastliðnum fór fram námskeið í öruggri lyfjaumsýslu. Námskeiðið var haldið á Laugarvatni á vegum MEDICO-hópsins (Nordic Medication Educators’ Collaboration) sem er hópur kennara í hjúkrunarfæði á Norðurlöndunum og Eistlandi. Hópurinn vinnur að eflingu kennslu í öruggri lyfjavinnu hjúkrunarnema og er verkefnið styrkt af Nordplus, menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar. Frá árinu 2011 hefur hópurinn stuðlað að skipulagningu menntunar um örugga lyfjaumsýslu í hjúkrunarfræði í þessum löndum. MEDICO-hópurinn hefur skipulagt og staðið fyrir árangursríkum námskeiðum fyrir bæði BS- og MS-hjúkrunarfræðinema. Slíkt námskeið var haldið í fyrsta skipti í Finnlandi árið 2017 og hér á landi í mars síðastliðnum. Guðrún Björg Erlingsdóttir sá um skipulagningu námskeiðsins að þessu sinni og dr. Virpi Sulosaari, sem er formaður MEDICO-hópsins og lektor við Turku-háskóla í hagnýtum vísindum í Finnlandi, stýrði báðum námskeiðunum. Íslensku þátttakendurnir voru sjö að þessu sinni, fjórir kennarar og þrír nemendur í BS-námi. Kennararnir voru dr. Helga Bragadóttir, Guðrún Björg Erlingsdóttir og Margrét Sigmundsdóttir frá Háskóla Íslands og dr. Margrét Hrönn Svavarsdóttir frá Háskólanum á Akureyri. Nemendur frá Háskólanum á Akureyri voru Elín María Gunnarsdóttir og Magali Brigitte Mouy. Frá Háskóla Íslands var Arndís Embla Jónsdóttir.

Örugg lyfjavinna hjúkrunarfræðinga

Á námskeiðinu kynntumst við hjúkrunarfræðináminu í nágrannalöndum okkar og hvernig lyfjaöryggi er háttað þar. Hæfni hjúkrunarfræðinga í öruggri lyfjavinnu var skoðuð þverfaglega með stuttum fyrirlestrum og fjölbreyttum hópverkefnum. Gefin hafa verið út hæfniviðmið um örugga lyfjavinnu hjúkrunarfræðinga og greind hafa verið ellefu hæfnisvið sem er grundvöllur öruggrar lyfjavinnu, sjá töflu 1 (Helga Bragadóttir o.fl., 2013). hæfniviðmiðin komu margsinnis fram í öllum hópverkefnum á námskeiðinu.

 

1. Líffæra- og lífeðlisfræði              
    7.   Lyfjaumsýsla
2. Lyfjafræði     8.   Símenntun í lyfjavinnu
3. Samskipti
    9.   Eftirlit og endurmat
4. Þverfagleg samvinna      10. Skráning
5. Upplýsingaöflun
    11.  Efling öruggrar lyfjavinnu sem hluti af öryggi sjúklinga
6. Stærðfræði og lyfjaútreikningur


Hópverkefni voru unnin í vinnusmiðjum þar sem vinnan fólst meðal annars í að koma með hugmyndir að úrræðum til að efla lyfjaöryggi út frá fimm mismunandi sjónarhornum; á landsvísu, út frá stofnunum, fræðilegum sjónarhornum, hjúkrunarfræðingum og skjólstæðingum. Það var einróma álit þátttakenda námskeiðsins að vinnusmiðjurnar hefðu skilað árangri, kennsluaðferðirnar þar hefðu virkjað nemendur vel í námi. Sameiginleg niðurstaða hópavinnunnar var að það sé mikilvægur hluti af heilbrigðisþjónustu að uppfræða skjólstæðinga um lyf og lyfjameðferð. Þar er samvinna hjúkrunarfræðinga og skjólstæðinga þeirra lykilatriði. Það eykur lyfjaöryggi að virkja skjólstæðinga og aðstandendur þeirra í meðferðinni með fræðslu um lyfin og notkun þeirra. Okkar hlutverk sem hjúkrunarfræðinga er að halda áfram að fræðast um örugga lyfjaumsýslan, vera gagnrýnin og festast ekki í viðjum vanans.

Öryggisviðhorf

Fjallað var um hugtakið „öryggisviðhorf“ (e. safety culture) sem er skilgreint sem samþætt viðhorf, skoðanir, skynjun og gildi sem starfsmenn deila í tengslum við öryggi á vinnustað (Cox og Cox, 1991). Eftir að hafa skoðað hugtakið settu nemendurnir upp lista af atriðum sem stuðla að betra öryggisviðhorfi á heilbrigðisstofnunum. Atriðin, sem stóðu upp úr voru heiðarleiki starfsmanna, jákvæð styrking frá stjórnendum
og beiting heildrænnar hjúkrunar. Einnig fengu nemendurnir í MS-námi það verkefni að komast að því hvernig stjórnendur stuðla að öryggisviðhorfi, sjá mynd 1.

 

Mynd 1: Verkefni MS-nema um hvernig stjórnendur geta eflt öryggismenningu á vinnustöðum.

Umræður

Hjúkrun og menning í þátttökulöndunum var mikið rædd meðal nemenda og þá komu í ljós ýmis vandamál tengd heilbrigðiskerfinu sem eru sameiginleg milli landa, sérstaklega í tengslum við lyfjaöryggi. Skortur á fjármagni til að betrumbæta heilbrigðiskerfið var það helsta, vinnuálag á hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki var einnig nefnt. Oft vantar skýrar leiðbeiningar frá hinu opinbera til að samræma vinnureglur á öllum heilbrigðisstofnunum landsins. Við umræður komu fram dæmi um vandamál sem sum lönd voru búin að finna ráð við en önnur lönd eru enn að glíma við. Til dæmis fylgja í Noregi myndir af töflunum með lyfjarúllunni og það auðveldarskjólstæðingnum að þekkja lyfin sín. Þetta eykur einnig öryggi þegar hjúkrunarfræðingar þurfa að fara yfir rúllurnar. Þetta eykur lyfjaöryggi þar í landi en nemendur annarra landa könnuðust ekki við þessa aðferð.

Farið var yfir margt á þessum stutta tíma á námskeiðinu og helst hefðum við, hjúkrunarfræðinemarnir, viljað vera lengur og læra meira. Það sem stendur upp úr eftir þessa viku er að öryggi við lyfjavinnu er forgangsatriði sem við þurfum alltaf að hafa í huga. Við hjúkrunarfræðinemar (mynd 2) getum stöðugt bætt okkur og þá stefnu sem við vinnum eftir. Við megum aldrei gleyma því að vera gagnrýnin á það sem við erum að gera. Að lokum stendur það upp úr að hjúkrunarfræðingar eiga að vera stoltir af sínu starfi, verklag þeirra ætti alltaf að vera til fyrirmyndar og það á ekki síst við þegar kemur að lyfjaöryggi.

Heimildir
Cox, S., og Cox, T. (1991) The structure of employee attitudes to safety: A European example. Work and Stress, 5, 93–106.
Gillespie, R., Mullan, J., og Harrison, L. (2014). Managing medications: The role of informal caregivers of older adults and people living with dementia.
A review of the literature. Journal of Clinical Nursing, 23 (23–24), 3296–3308, doi:10.1111/jocn.12519.
Helga Bragadóttir, Margrét Sigmundsdóttir, Brynja Ingadóttir, Katrín Blöndal, Lovísa Baldursdóttir og Elín J.G. Hafsteinsdóttir (2013). Örugg lyfjavinna hjúkrunarfræðinga: Lengi býr að fyrstu gerð. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 89 (5), 44–47.

 

Fagið

Pistlar

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála