Hjukrun.is-print-version

Starfsánægja hjúkrunarfræðinga og viðhorf til þjónustu í fari yfirmanna á umbreytingartímum í heilbrigðisþjónustu

3. tbl. 2020
Ritrýnd grein: Kristín Þórarinsdóttir, Hjördís Sigursteinsdóttir og Kristín Thorberg

Kristín Þórarinsdóttir, hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri
Hjördís Sigursteinsdóttir, viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri
Kristín Thorberg, hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri


Tilgangur:
Árið 2014 voru gerðar breytingar á heilbrigðisþjónustu hér á landi sem leiddu til fækkunar á heilbrigðisumdæmum og samruna stofnana. Við breytingarnar varð til Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) með sex starfsstöðvar. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir geta haft áhrif á starfsánægju starfsmanna og því skiptir máli hvernig stjórnendur bregðast við og innleiða þær. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða starfsánægju hjúkrunarfræðinga á HSN skömmu eftir skipulagsbreytingar, meta viðhorf þeirra til þjónandi forystu í fari yfirmanna sinna í hjúkrun ásamt því að kanna hvort tengsl væru milli þessara tveggja þátta.

Aðferð: Gögnum var safnað með könnun um starfsánægju og spurningalista um þjónandi forystu, Servant Leadership Survey (SLS) í íslenskri þýðingu. Spurningalistinn leiðir í ljós heildartölu þjónandi forystu og átta undirþætti hennar. Þátttakendur voru hjúkrunarfræðingar á HSN (N=104) sem fengu spurningalistann í tölvupósti. Svarhlutfall var 47,1%. Við úrvinnslu gagna var notuð lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði. 

Niðurstöður: Starfsánægja mældist há og fram komu sterk jákvæð tengsl milli starfsánægju og þjónandi forystu. Heildarvægi þjónandi forystu mældist 4,62 af 6,0 mögulegum (SD = 0,65). Meðalstigafjöldi undirþátta lá á bilinu 3,39 til 5,01. Þrír af átta þáttum þjónandi forystu (hugrekki, forgangsröðun í þágu annarra og falsleysi) voru undir viðmiðunarmörkum (α < 0,7). Undirþáttur með hæsta gildið var fyrirgefning en það gefurtil kynna að persónulegur ágreiningurtrufli ekki samskipti hjúkrunarfræðinga og yfirmanna í hjúkrun á HSN.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að hjúkrunarfræðingar á HSN, sem var nýlega stofnuð þegar rannsóknin fór fram, hafi verið ánægðir í starfi og einkenni þjónandi forystu hafi verið til staðar hjá
yfirmönnum í hjúkrun á stofnuninni. Þá gefa þessar niðurstöður vísbendingar um að yfirmenn í hjúkrun á HSN hafi ráðið vel við þær skipulagsbreytingar sem urðu á heilbrigðisþjónustunni á þjónustusvæði HSN.

Efnisorð: Þjónandi forysta, Starfsánægja, Skipulagsbreytingar, Hjúkrunarfræðingar, Konur.

3. tbl. 2020: Starfsánægja hjúkrunarfræðinga og viðhorf til þjónustu í fari yfirmanna á umbreytingartímum í heilbrigðisþjónustu

Fagið

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála