Streita og kulnun hjúkrunarfræðinema á lokaári við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri
Bakgrunnur: Sýnt hefur verið fram á að hjúkrunarfræðinemar sem finna fyrir einkennum streitu og kulnunar á námstímanum, eru líklegri til að glíma við streitu og kulnunareinkenni eftir útskrift og eru jafnframt líklegri til að hætta í starfi en þeir sem ekki finna fyrir þessum einkennum.
Tilgangur: Að lýsa námi og framtíðaráformum, almennri og námstengdri streitu, bjargráðum og kulnun hjá lokaárs hjúkrunarfræðinemum á Íslandi; skoða samband almennrar streitu og kulnunar innbyrðis og við nám, framtíðaráform, og bakgrunnsbreytur; greina áhrifaþætti streitu, persónutengdrar og námstengdrar kulnunar og kulnunar tegndri samnemendum.
Aðferð: Megindleg með lýsandi könnunarsniði. Mæltiækin Perceived Stress Scale (PSS) og Copenhagen Burnout Inventory (CBI) mældu einkenni streitu og kulnunar. Línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að greina áhrifaþætti streitu og kulnunar.
Niðurstöður: Þátttakendur voru 82 (72,6% svörun). Meðaltalsstig á PSS var 17,8 á kvarða frá 9-40, á persónutengdri kulnun 42,9, á námstengdri kulnun 56,9 og á kulnun tengdri samnemendum 31,2 á kvörðum frá 0-100. Meirihluti nemenda fann fyrir mikilli streitu sem tengdist háskólanáminu sjálfu (85%) og skorti á námsleiðbeiningum (57%).
Fjórar aðhvarfsgreiningar voru unnar. Spálíkan 1 sýndi að nemendur sem telja sig fá lítinn/engan stuðning við námið og litlar/engar námsleiðbeiningar eru líklegri til að hafa hærra meðaltalsstig á PSS (r2=17,2). Spálíkan 2 sýndi að nemendur sem eru 30 ára og eldri eru líklegri til að hafa hærra meðaltalsstig á kvarðanum kulnun tengdri samnemendum (r2=8,1). Spálíkan 3 sýndi að nemendur með mikla/mjög mikla streitu tengda ástundun háskólanáms og samskiptum við kennara eru líklegri til að hafa hærra meðaltalsstig á kvarðanum um námstengda kulnun (r2=34,8). Líkan 4 sýnir að nemendur sem hafa fleiri stig á PSS eru líklegri til að hafa hærri meðaltalsstig á kvarðanum um persónutengda kulnun
(r2=30,6).
Ályktun: Hjúkrunarfræðinemar á lokaári upplifa streitu og kulnun í námi. Mikilvægt er finna leiðir til að fyrirbyggja og meðhöndla streitu og draga úr kulnun meðan á náminu stendur.
Lykilorð: Streita, kulnun, hjúkrunarfræðinemendur.