Árangur og forysta í hjúkrun: Viðhorf til þjónandi forystu, starfsánægju, starfstengdra þátta og gæða þjónustu Akureyri
Hulda Rafnsdóttir, Sjúkrahúsinu á Akureyri
Ragnheiður Harpa Arnardóttir, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Háskólanum á Akureyri
Sigrún Gunnarsdóttir, Háskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst
Bakgrunnur: Stjórnendur hafa áhrif á vinnuumhverfi, líðan starfsmanna og öryggi í heilbrigðisþjónustunni. Þjónandi forysta byggist á þeirri hugmyndafræði að leiðtogi sé fyrst og fremst þjónn sem virðir forn gildi um mannúð og siðgæði og setur velferð annarra framar eigin völdum og vegsauka. Slíkt samrýmist vel hugmyndafræði hjúkrunar. Nýlegar rannsóknir gefa vísbendingar um góð áhrif þjónandi forystu í fyrirtækjum og stofnunum, einnig innan heilbrigðisþjónustunnar.
Markmið: Að kanna hvort stjórnunarhættir með áherslu á þjónandi forystu væru til staðar á hjúkrunarsviðum Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), hver afstaða hjúkrunarstarfsfólks væri til starfsánægju, starfstengdra þátta og gæða þjónustu og hvort tengsl væru milli þessara þátta.
Aðferð: Rannsóknin var lýsandi þversniðskönnun. Þátttakendur voru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar á SAk haustið 2011. Lagður var fyrir spurningalisti um þjónandi forystu, Servant Leadership Survey (SLS), ásamt almennum spurningum um starfsánægju, starfstengda þætti og gæði þjónustunnar, alls 54 spurningar. SLS mælir heildartölu og átta undirþætti þjónandi forystu.
Niðurstöður: Svörun var 57,5% (149 svör). Heildartala SLS var 4,3 (± 0,62) og undirþættirnir mældust á bilinu 3,99 til 4,6 (staðalfrávik 0,78 til 1,04), en hæsta mögulega gildi SLS er 6. Undirþátturinn samfélagsleg ábyrgð mældist hæstur (4,6 ± 0,81).
Langflestir þátttakendur voru ánægðir í starfi (96%) og 95,3% töldu veitta þjónustu góða. Starfsánægja hafði sterkustu fylgni við undirþáttinn eflingu (r = 0,48; p<0,01). Fylgni var milli eflingar og allra starfstengdra þátta (r = 0,18-0,44; p<0,05). Nokkur fylgni var
á milli þjónandi forystu og öryggis skjólstæðinga. Þrír starfstengdir þættir (hlutdeild í ákvörðunartöku, fær viðurkenningu/hrós og upplýsingaflæði er gott) útskýrðu 54% af
heildargildi þjónandi forystu (p<0,001).
Ályktanir: Stjórnunarhættir þjónandi forystu eru til staðar á hjúkrunarsviðum SAk að mati þátttakenda. Starfsfólk er almennt ánægt í vinnunni og telur þjónustu við skjólstæðinga góða. Þetta styður niðurstöður fyrri rannsókna um að aðferðir þjónandi forystu tengist sameiginlegri ákvarðanatöku, góðu vinnuumhverfi og upplýsingaflæði en það getur tengst starfsánægju, gæðum og öryggi í heilbrigðisþjónustunni.
Lykilorð: Forysta, þjónandi forysta, stjórnun, starfsánægja, gæði þjónustu.