Hjukrun.is-print-version

Teymisvinna og starfsánægja í hjúkrun á sjúkrahúsum á Íslandi: Lýsandi rannsókn

RSSfréttir
21. nóvember 2016
Lýsandi rannsókn
Helga Bragadóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Sigrún Stefánsdóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Sólrún Áslaug Gylfadóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala 
Guðný Bergþóra Tryggvadóttir, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands


Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á teymisvinnu og tengsl hennar við starfsánægju í hjúkrun á íslenskum sjúkrahúsum.

Aðferð: Rannsóknin var megindleg lýsandi þversniðs- rannsókn. Notaður var skriflegur spurningalisti, Nursing Teamwork Survey-Icelandic (NTS-Icelandic), en þar er spurt um teymisvinnu í hjúkrun ásamt bakgrunnsbreytum. Spurt var um 33 staðhæfingar sem falla á fimm þætti: gagnkvæmt traust, stefnu teymis, gagnkvæman stuðning, sameiginlega sýn og teymis- forystu. Í úrtaki rannsóknarinnar voru allir fastráðnir starfsmenn hjúkrunar á legudeildum lyflækninga, skurðlækninga og gjörgæslu á íslenskum sjúkrahúsum, samtals 925 starfsmenn. Svörun var 70%.

Niðurstöður: Heildarteymisvinna mældist 3,89 (SF=0,48) á kvarðanum 1-5. Af undirþáttum var þátturinn sameiginleg sýn/hugsunarháttur með hæsta meðaltalið (M=4,20; SF=0,49) og teymisforysta með lægsta meðaltalið (M=3,66; SF=0,77). Tölfræðilega marktæk jákvæð tengsl mældust milli heildarteymisvinnu og ánægju í núverandi starfi (r=0,395; p<0,001) og ánægju með starfsgrein (r=0,206, p<0,001) og allir þættir teymisvinnu höfðu tölfræðilega marktæka jákvæða fylgni við ánægju í núverandi starfi og ánægju með starfsgrein (p≤0,05). Þeir sem höfðu áform um að hætta í núverandi starfi innan árs töldu heildarteymisvinnu marktækt lakari en þeir sem ekki höfðu í hyggju að hætta (t(613)=-2,247; p=0,025). Þegar einstakir þættir teymisvinnu voru skoðaðir reyndist einn þáttur, sameiginleg sýn, tölfræði- lega marktækt tengdur áformum um að hætta í núverandi starfi (t(613)=-2,103; p=0,036). Þeir sem höfðu í hyggju að hætta í núverandi starfi töldu sameiginlega sýn lakari en samanburðarhópurinn.

Ályktanir: Teymisvinna er almennt góð á sjúkrahúsum landsins en tækifæri eru til að styrkja hana enn frekar, ekki síst teymisforystu. Góð teymisvinna tengist ánægju í starfi og áformum um að hætta og því er mikilvægt að bregðast við þar sem þörf er á íhlutun. Frekari rannsókna er þörf á teymisvinnu á íslenskum sjúkrahúsum og tengslum teymisvinnu við afdrif og árangur starfsmanna og sjúklinga. Mikilvægt er að greina hvaða íhlutanir eru árangursríkastar til lengri tíma litið.

Lykilorð: Hjúkrun, sjúkrahús, starfsánægja, teymisvinna.

4.tbl. 2016: Teymisvinna og starfsánægja í hjúkrun á sjúkrahúsum á Íslandi: Lýsandi rannsókn

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála