Helga Bragadóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Sigrún Stefánsdóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Sólrún Áslaug Gylfadóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Guðný Bergþóra Tryggvadóttir, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands
Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á teymisvinnu og tengsl hennar við starfsánægju í hjúkrun á íslenskum sjúkrahúsum.
Aðferð: Rannsóknin var megindleg lýsandi þversniðs- rannsókn. Notaður var skriflegur spurningalisti, Nursing Teamwork Survey-Icelandic (NTS-Icelandic), en þar er spurt um teymisvinnu í hjúkrun ásamt bakgrunnsbreytum. Spurt var um 33 staðhæfingar sem falla á fimm þætti: gagnkvæmt traust, stefnu teymis, gagnkvæman stuðning, sameiginlega sýn og teymis- forystu. Í úrtaki rannsóknarinnar voru allir fastráðnir starfsmenn hjúkrunar á legudeildum lyflækninga, skurðlækninga og gjörgæslu á íslenskum sjúkrahúsum, samtals 925 starfsmenn. Svörun var 70%.
Niðurstöður: Heildarteymisvinna mældist 3,89 (SF=0,48) á kvarðanum 1-5. Af undirþáttum var þátturinn sameiginleg sýn/hugsunarháttur með hæsta meðaltalið (M=4,20; SF=0,49) og teymisforysta með lægsta meðaltalið (M=3,66; SF=0,77). Tölfræðilega marktæk jákvæð tengsl mældust milli heildarteymisvinnu og ánægju í núverandi starfi (r=0,395; p<0,001) og ánægju með starfsgrein (r=0,206, p<0,001) og allir þættir teymisvinnu höfðu tölfræðilega marktæka jákvæða fylgni við ánægju í núverandi starfi og ánægju með starfsgrein (p≤0,05). Þeir sem höfðu áform um að hætta í núverandi starfi innan árs töldu heildarteymisvinnu marktækt lakari en þeir sem ekki höfðu í hyggju að hætta (t(613)=-2,247; p=0,025). Þegar einstakir þættir teymisvinnu voru skoðaðir reyndist einn þáttur, sameiginleg sýn, tölfræði- lega marktækt tengdur áformum um að hætta í núverandi starfi (t(613)=-2,103; p=0,036). Þeir sem höfðu í hyggju að hætta í núverandi starfi töldu sameiginlega sýn lakari en samanburðarhópurinn.
Ályktanir: Teymisvinna er almennt góð á sjúkrahúsum landsins en tækifæri eru til að styrkja hana enn frekar, ekki síst teymisforystu. Góð teymisvinna tengist ánægju í starfi og áformum um að hætta og því er mikilvægt að bregðast við þar sem þörf er á íhlutun. Frekari rannsókna er þörf á teymisvinnu á íslenskum sjúkrahúsum og tengslum teymisvinnu við afdrif og árangur starfsmanna og sjúklinga. Mikilvægt er að greina hvaða íhlutanir eru árangursríkastar til lengri tíma litið.
Lykilorð: Hjúkrun, sjúkrahús, starfsánægja, teymisvinna.
4.tbl. 2016: Teymisvinna og starfsánægja í hjúkrun á sjúkrahúsum á Íslandi: Lýsandi rannsókn