Fagdeild geðhjúkrunarfræðinga
Markmið geðhjúkrunar er að veita örugga og árangursríka hjúkrun sem byggð er á þekkingu og umhyggju fyrir sjúklingnum og fjölskyldu hans. Mikilvægt er að einstaklingar með geðröskun fái meðferð án tafar og verði virkir þátttakendur ásamt fjölskyldu sinni í allri ákvarðanatöku og meðferð. Geðhjúkrun byggir að miklu leyti á samstarfi og samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir til að tryggja samfellda og samhæfða umönnun og eftirmeðferð. Virkt samstarf við skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra er því lykill að allri geðhjúkrun. Rannsóknir eru undirstaða faglegrar þróunar í geðhjúkrun.
Störf við geðhjúkrun eru fjölbreytileg og felast að miklu leyti í samskiptum við skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra. Störf við geðhjúkrun byggja að miklu leyti á teymisvinnu sérfræðinga. Hugtök eins og stuðningur, samskipti, samstarf og fræðsla eru lykilhugtök í geðhjúkrun.
Geðhjúkrunarfræðingar eru lausnarmiðaðir í úrlausnum flókinna vandamála af geðrænum- og félagslegum toga. Geðhjúkrunarfræðingar sérhæfa sig í mismunandi meðferðarformum sem þeir nýta í starfi. Geðhjúkrun felur í sér lausn flókinna samskipta- og ágreiningmála.
Hjúkrunarfræðingar sinna geðhjúkrun inni á sjúkrastofnunum, störfum þar sem mikil áhersla er lögð á færni í mannlegum samskiptum og fræðslu víða í þjóðfélaginu. Mikil áhersla er lögð á að hjúkrunarfræðingar fylgist með og komi á framfæri nýjungum í hjúkrun.
Arndís Vilhjálmsdóttir formaður
Guðfinna Betty Hilmarsdóttir varaformaður
Valur Þór Kristjánsson gjaldkeri
Ragnheiður Bjarman Eiríksdóttir ritari
Gisli Kort Kristofersson meðstjórnandi
Guðbjörg Sveinsdóttir varamaður
Björg Guðmundsdóttir varamaður og annar skoðunarmaður reikninga
Margrét Hákonardóttir fyrsti skoðunarmaður reikninga
Nafn deildar
Nafn fagdeildarinnar er Fagdeild geðhjúkrunarfræðinga og starfar innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Heimili og varnarþing er í Reykjavík en umdæmið er landið allt. Lög Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru lög fagdeildarinnar.
Hlutverk og markmið
Fagdeild geðhjúkrunarfræðinga vinnur að framgangi geðhjúkrunar í samvinnu við fagsvið Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Deildin er stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nefndum til ráðgjafar um málefni á sérsviði fagdeildar (sbr. lög Fíh, 16.gr. Fagdeildir).
Markmið deildarinnar eru:
- Að taka þátt í stefnumótun varðandi þróun og framkvæmd á lögum og reglum varðandi veitingu og viðhaldi sérfræðileyfa í geðhjúkrun.
- Að hafa áhrif á lagasetningar varðandi útvíkkað starfsvið geðhjúkrunar.
- Að vera virkur samstarfsaðili heilbrigðisstofnana í þróun og fjölgun á störfum í geðhjúkrun á viðkomandi stofnun.
- Að vera virkur þátttakandi í umræðum í samfélaginu um þverfaglegt samstarf í heilbrigðisþjónustu ásamt eflingu á hlutverki og ábyrgð hjúkrunarfræðinga í því samhengi.
- Að vera ráðgefandi fyrir hjúkrunarfræðinga sem leita leiðsagnar á sviði geðhjúkrunar.
- Að vera í virku samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri um þróun geðhjúkrunar.
- Að auðvelda aðgengi að geðráðgjöf í hjúkrun.
- Að efla fagmennsku og þróun í hjúkrun.
- Að efla gæði hjúkrunar og stuðla þannig að bættum hag skjólstæðinga hjúkrunar.
Aðild
Rétt til aðildar hafa allir félagsmenn innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (full aðild, fagaðild, lífeyrisaðild), hvort heldur sem þeir starfa eða hafa starfað á sviði geðhjúkrunar. Óska skal eftir aðild til stjórnar fagdeildar.
Aðalfundur
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum deildarinnar. Aðalfund skal halda árlega fyrir lok mars/apríl. Stjórn ákveður tíma og fundarstað. Boða skal til aðalfundar rafrænt með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað. Fundarboði skal fylgja dagskrá og tillögur sem leggja á fyrir fundinn. Hefð er fyrir því að bjóða upp á fyrirlestur að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum.
Dagskrá aðalfundar:
- Skýrsla stjórnar
- Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram til samþykktar
- Árgjald ákveðið
- Starfsreglur deildar
- Reglubreytingar
- Kosning stjórnar samkvæmt 5. grein
- Kosning skoðunarmanna reikninga
- Önnur mál
Einfaldur meirihluti ræður við afgreiðslu mála. Löglega boðaður aðalfundur hefur óskorðaðan rétt til afgreiðslu mála án tillits til þess hve margir fundarmenn eru mættir. Stjórn leggur fram ársskýrslu um starfsemi deildarinnar sem samþykkt hefur verið á aðalfundi, til stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir lok mars/apríl mánaðar ár hvert. Á aðalfundi er einnig fjallað um tillögur félagsmanna.
Stjórn
Kosið er til stjórnar á aðalfundi. Stjórnarseta er til tveggja ára. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skipta stjórnarmeðlimir með sér verkum: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Kjörtímabil er tvö ár og endurkjör er heimilt. Þó skal enginn sitja lengur en sex ár samfellt í hverri stöðu. Í stjórn fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga er a.m.k. einn stjórnarmaður með viðbótar- eða framhaldsnám á sérsviði fagdeildar. Kosning skal vera skrifleg og leynileg ef fleiri en einn félagi býður sig fram til sama embættis. Laus embætti innan stjórnar skal auglýsa með aðalfundarboði. Allir deildarmeðlimir geta boðið sig fram í stjórn og skal framboð tilkynnt stjórn deildarinnar á netfang ged@hjukrun.is í síðasta lagi viku fyrir aðalfund. Ný stjórn fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga ákveður hver fulltrúi hennar skal vera í norrænu samstarfsnefndinni PSSN (Nordisk Samarbeid for psykiatriske sykepleiere). Ekki er krafa um að sá aðili sitji í stjórn fagdeildar. Tilkynna þarf formannsskipti til HORATIO evrópsk samtök geðhjúkrunarfræðinga.
Stefnumótun
Fagdeild geðhjúkrunarfræðinga skal setja sér stefnu í hjúkrunar- og heilbrigðismálum. Sviðstjóra fagsviðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga skal kynnt stefnan. Endurskoða skal stefnuna reglulega.
Reikningar
Reikningstímabil deildar miðast við almanaksárið 1. janúar til 31. desember. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn úr röðum félagsmanna. Skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga deildarinnar fyrir aðalfund og gera athugasemdir ef ástæða er til.
Slit deildarinnar
Deildina er hægt að leggja niður á aðalfundi deildarinnar. Einnig getur fagsvið Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga ákveðið að leggja niður deildina hafi hún ekki skilað ársskýrslu til stjórnar fagsviðs í samfelld tvö ár. Verði deildin lögð niður skal eignum hennar ráðstafað eftir því sem aðalfundur deildarinnar ákveður í samræmi við markmið hennar.
Gildi starfsreglnanna
Starfsreglur þessar hafa verið samþykktar af stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nýjustu breytingar voru samþykktar á aðalfundi deildar sérfræðinga í hjúkrun í nóvember 2018.
Rannsóknir eru undirstaða faglegrar þróunar í geðhjúkrun. Hér koma dæmi um nokkrar rannsóknir og þróunarverkefni sem unnið hefur verið að innan geðhjúkrunar:
Reynsla foreldra af því að eiga son eða dóttur með jaðarpersónuleikaröskun. Linda Kristmundsdóttir
Könnun á þörf fyrir geðhjúkrunarráðgjöf. Ásta Snorradóttir og Rannveig Þöll Þórsdóttir
Lýsing á svefnerfiðleikum kvenna og áhrif dáleiðslumeðferðar á þá. Ingibjörg Davíðsdóttir.
Rannsókn á áhrifum mismunandi þjónustu fyrir börn með einhverfu og fjölskyldur þeirra. Kristín Kristmundsdóttir, Sólveig Guðlaugsdóttir og Páll Magnússon.
Þróunarverkefni varðandi hugræna atferlishópmeðferð fyrir þunglynda unglinga sem göngudeildarúrræði á barna- og unglingageðdeild. Linda Kristmundsdóttir, Margrét Ólafsdóttir, Haukur Haraldsson.
Reynsla foreldra af þjónustu legudeilda BUGL. Páll Biering, Helga Jörgensdóttir, Linda Kristmundsdóttir, Sigurbjörg Marteinsdóttir og Þórdís Rúnarsdóttir.
Lýsingar einstaklinga á áfallareynslu og áhrifum dáleiðslumeðferðar á úrvinnsluferlið. Sigurlína Hilmarsdóttir.
Könnun á þjálfunarnámskeiðum fyrir foreldra ofvirkra barna á barnadeild BUGL. Sólveig Guðlaugsdóttir.
Tilraunaverkefni varðandi stuðning við fjölskyldur ofvirkra barna. Vilborg G. Guðnadóttir og Unnur Heba Steingrímsdóttir.
Skýringalíkön unglingaofbeldis. Páll Biering.
Aðstandendur geðsjúkra. Eydís Sveinbjarnardóttir.
Geðhjúkrunarfræðingar starfa víða úti í samfélaginu við forvarnir. Sem dæmi má nefna að geðhjúkrunarfræðingar starfa með Landlæknisembættinu og heilbrigðisyfirvöldum við að marka stefnu í málefnum geðsjúkra. Mikið forvarnarstarf er unnið með félagssamtökum eins og Geðhjálp en geðhjúkrunarfræðingar hafa verið virkir í samstarfi við þau samtök. Geðhjúkrunarfræðingar hafa einnig verið virkir við að þróa forvarnarstarf í skólum og öðrum vinnustöðum um land allt.
Hjúkrunarfræðingar geta sinnt geðhjúkrun hvar sem er. Öll störf við hjúkrun fela í sér geðhjúkrun. Starfsvettvangurinn er þó aðallega inni á geðdeildum Landspítala- háskólasjúkrahúss og geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Geðhjúkrunarfræðingar hafa verið eftirsóttur starfskraftur á sviðum þar sem mikið reynir á mannleg samskipti. Dæmi um vinnustaði þar sem geðhjúkrunarfræðingar hafa verið að störfum: Athvörf fyrir geðsjúka, heilsugæslustöðvar, Félagsþjónustan, Barnaverndarstofa, Landlæknisembættið, Heilbrigðisráðuneytið, Menntamálaráðuneytið, Svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra, lyfjafyrirtæki auk starfa við kennslu.