Hjukrun.is-print-version

Krabbameinshjúkrun

Krabbameinshjúkrunarfræði hefur alþjóðlega viðurkenningu sem sérgrein innan hjúkrunar. Krabbamein er langvinnur sjúkdómur og meðferð og umönnun þeirra sem eru með krabbamein krefst samvinnu og samhæfingar margra fagstétta innan heilbrigðiskerfisins ef veita á gæðaþjónustu.

Hjúkrunin tekur mið af þörfum sjúklingsins og fjölskyldu hans og leggur fagdeildin áherslu á að hvers kyns breytingar innan heilbrigðisskerfisins komi ekki í veg fyrir að skjólstæðingum verði veitt árangursrík, markviss og örugg þjónusta. Þjónustan á að vera skipulögð og veitt af sérhæfðu fagfólki og er mikilvægt að allar heilbrigðisáætlanir tryggi skjólstæðingum jafnan og greiðan aðgang og tryggja þarf aðgang að þverfaglegu teymi hvenær sem er á sjúkdómsferlinu; við greiningu, meðferð, eftirlit, endurhæfingu og lífslok.

Fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga var stofnuð 12. maí 1996. Félagafjöldinn hefur aukist jafnt og þétt og telur nú hátt á annað hundrað. Stefna fagdeildarinnar samræmist í megin atriðum stefnu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í hjúkrunar-og heilbrigðismálum. Fagdeildin vinnur eftir ákveðnum starfsreglum, ásamt því að reka styrktarsjóð sem útthlutað er úr árlega. Fagdeildin er aðili að samtökum Evrópskra krabbameinshjúkrunarfræðinga (EONS) og alþjóðasamtökum krabbameinshjúkrunarfræðinga (ISNCC). Árleg hefð er fyrir vel sóttu málþingi fagdeildarinnar að hausti.


Starfsreglur fagdeildar krabbameinshjúkrunarfræðinga

1. gr.

Nafn fagdeildar er fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga. Fagdeildin starfar innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Heimili og varnarþing er í Reykjavík en umdæmið er landið allt. Lög Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru lög fagdeildarinnar.

 

2. gr.

Markmið fagdeildar er að stuðla að eflingu forvarna og að auka gæði hjúkrunar einstaklinga með krabbamein með því að:

  • Veita ráðgjöf til stjórnar og nefnda Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um hjúkrun einstaklinga með krabbamein og fjölskyldna þeirra.
  • Hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum hvað varðar forgangsröðun verkefna og standa vörð um hagsmuni einstaklinga með krabbamein.
  • Stuðla að aukinni fræðslu til skjólstæðinga um andleg, líkamleg og félagsleg viðbrögð og viðeigandi úrræði á öllum stigum krabbameins.
  • Bæta menntun á sviði hjúkrunar einstaklinga með krabbamein og hvetja hjúkrunarfræðinga til að viðhalda og efla hæfni sína og þekkingu á því sviði.
  • Hvetja til aukins samstarf við hjúkrunarfræðinga, er starfa við hjúkrun einstaklinga með krabbamein, jafnt innanlands og utan.
  • Stuðla að aukinni samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir til að tryggja samfellu í þeirri þjónustu sem veitt er til einstaklinga með krabbamein og fjölskyldna þeirra.
  • Hvetja til þróunar og þátttöku í rannsóknum á sviði hjúkrunar sem snúa að einstaklingum með krabbamein, og að hvetja til nýtingar á rannsóknarniðurstöðum til að efla gæði hjúkrunar.
  • Mynda og efla tengsl við stofnanir og félög sem veita þjónustu á sviði krabbameins.

 

3. gr. Aðild.

Rétt til aðildar að fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga öðlast félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) hafi þeir fulla aðild, aukaaðild (hjúkrunarnemar) eða fagaðild að Fíh. Hjúkrunarfræðingar (hjúkrunarnemar) þurfa þar að auki að starfa við eða hafa starfað við krabbameinshjúkrun og/eða hafa sérfræðingsleyfi eða viðbótarmenntun í krabbameinshjúkrun. Félagsmenn sem ekki greiða félagsgjöld í tvö ár falla sjálfkrafa af félagaskrá.

 

4. gr.

Stjórn deildarinnar skipa 7 félagsmenn: formaður, verðandi formaður, ritari, gjaldkeri, tveir meðstjórnendur og einn varamaður. Stjórn deildarinnar skal kosin á aðalfundi.  Verðandi formaður skal kosinn sérstaklega og sitja sem slíkur í að minnsta kosti eitt ár og sem formaður næstu tvö ár á eftir. Formaður situr ekki lengur en tvö ár í senn. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Leitast skal við að aldrei gangi fleiri en þrír kjörnir stjórnarmenn úr stjórn hverju sinni. Endurkjör er heimilt. Einfaldur meirihluti ræður kjöri. Aðrir stjórnarmenn en verðandi formaður og varaformaður skipta með sér verkum. Framboðsrétt til stjórnar og atkvæðisrétt á aðalfundi hafa skráðir fagdeildarmeðlimir sem hafa greitt fagdeildargjöld á yfirstandandi starfsári.

 

5. gr.

Aðalfundur skal haldinn í febrúar ár hvert. Aðalfund skal boða skriflega með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfunda:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram
  3. Kosning stjórnar samkvæmt 4. gr
  4. Tilnefning tveggja endurskoðanda
  5. Árgjald ákveðið
  6. Önnur mál

6. gr.

Stjórn fagdeildar getur gert að heiðursfélaga, þann einstakling sem fagdeildin vill sýna sérstaka virðingu og heiðra fyrir störf í þágu krabbameinshjúkrunar. Ákvörðun um heiðursfélaga þarf samþykki allra stjórnarmeðlima. Fagdeildarmeðlimir geta komið með tillögu að tilnefningu til stjórnar fagdeildarinnar. Heiðursfélagar eru sæmdir gullnælu fagdeildarinnar og henni fylgir æviaðild að fagdeildinni.


7 . gr.

Starfsreglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu skriflegar tillögur um breytingar á reglum berast stjórn eigi síðar en viku fyrir aðalfund.

Endurskoðað af stjórn fagdeildar og samþykkt í febrúar 2016

 

Halldóra Hálfdánardóttir, formaður

Anna Kristín B. Jóhannesdóttir, verðandi formaður

Ásta I. Þorsteinsdóttir, gjaldkeri

Stella María Óladóttir, ritari

Auður Elísabet Jóhannsdóttir, meðstjórnandi og Evrópufulltrúi

Halldóra Egilsdóttir, meðstjórnandi

Magna Jónmundsdóttir, meðstjórnandi

Fagdeildin á aðild að Evrópusamtökum krabbameinshjúkrunarfræðinga (EONS) og Alþjóðasamtökum krabbameinshjúkrunarfræðinga (ISCNN). Fjölmargir styrkir og námsmöguleikar, bæði í formi vinnusmiðja og náms á netinu, standa meðlimum til boða. Einnig fá þeir afslátt af ráðstefnugjaldi. Meðlimir fagdeildarinnar fá einnig sent fréttabréf EONS í tölvpósti mánaðarlega.

Fagdeildarmeðlimir eru hvattir til að kynna sér hið mikla starf sem fram fer á vegum þessara samtaka á vefsíðum þeirra:  

www.cancernurse.eu
www.isncc.org

Fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga telur rannsóknir vera lykilatriði til að stuðla að þróun þekkingar og  gagnreyndri krabbameinshjúkrun fyrir almenning, sjúklinga og aðstandendur þeirra og hvetur því hjúkrunarfræðinga til að stunda rannsóknir og hagnýta rannsóknir í klínísku starfi. Fagdeildin styður við þekkingaröflun og rannsóknir til að tryggja að krabbameinshjúkrun á Íslandi taki mið af bestu fyrirliggjandi þekkingu hverju sinni.

Fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga leggur áherslu á virka þátttöku sjúklinga og almennings í rannsóknarferlinu, allt frá rannsóknarhugmynd til framkvæmd rannsókna. Þarfir sjúklinga og aðstandenda eru leiðarstef í rannsóknum í krabbameinshjúkrun.

Fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga telur mikilvægt að hjúkrunarfræðingar taki þátt í fjöl- og þverfaglegu rannsóknarsamstarfi til að mæta þörfum almennings, sjúklinga og aðstandenda á sem víðtækastan hátt. Leggja þarf áherslu á rannsóknir á sviði einkennameðferðar, lífslokameðferðar og á lífsgæðum og þörfum eftirlifenda (survivorship).

Markmið rannsókna í krabbameinshjúkrun eru að:

  • Efla forvarnir gegn krabbameini
  • Bæta lífsgæði og líðan krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra
  • Bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur
  • Stuðla að aukinni þekkingu og faglegri þróun krabbmeinshjúkrunarfræðinga
  • Hagnýta vísindalega þekkingu til að efla gagnreynda starfshætti krabbmeinshjúkrunarfræðinga
 


Starfsreglur sjóðsins

  1. Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður fagdeildar krabbameinshjúkrunarfræðinga.
  2. Stjórn sjóðsins er skipuð þremur félögum í fagdeildinni, og þar af minnst einum stjórnarmanni.  Stjórn sjóðsins er kosin til tveggja ára í senn, en þó skulu ekki allir stjórnarmenn ganga úr stjórn á sama tíma.
  3. Umsóknarfrestur um styrki úr sjóðnum er til 1. apríl ár hvert og verður umsóknum svarað fyrir 1. maí.  Umsóknareyðublöð er að finna á heimasíðu fagdeildarinnar, undir Styrktarsjóður fagdeildar.
  4. Umsækjendur skulu vera skuldlausir við fagdeildina og hafa verið félagar í deildinni í að minnsta kosti eitt ár.
  5. Styrkveitingar úr sjóðnum skulu miðast við að höfuðstóll hans haldi verðgildi sínu að upphæð 1.000.000,- kr. Hver styrkur skal ekki vera hærri en 100.000,- kr.
  6. Styrkir verða eingöngu veittir í verkefni og til símenntunar á sviði krabbameinshjúkrunar.
  7. Styrkþegar skulu kynna verkefni sín fyrir fagdeildinni innan 6 mánaða frá veitingu.  Kynningin getur verið í formi greinar í fréttabréfinu eða með því að kynna verkefnið á fundum deildarinnar.
  8. Umsóknum verður raðað í forgangsröð.  Umsóknir til að sækja vísindaþing, einkum þar sem styrkþegi kynnir rannsóknarniðurstöður ganga fyrir. Þeir sem hlotið hafa styrk áður lenda aftar í röðinni.
  9. Eldri verkefni en ársgömul eru ekki styrkhæf.
  10. Styrkjum verður úthlutað samkvæmt fjárhagsáætlun eða framlögðum reikningi í frumriti.  Sé styrks ekki vitjað fyrir 1. apríl ári eftir að hann var veittur, fellur hann niður.
  11. Sjóðurinn er í vörslu gjaldkera fagdeildarinnar. Reikningsár sjóðsins er 1. janúar til 31. desember ár hvert. Reikningar sjóðsins verða yfirfarnir af skipuðum endurskoðendum fagdeildarinnar
  12. Reglur sjóðsins skal endurskoða árlega, fyrir aðalfund fagdeildarinnar.

 

 

                               Endurskoðað af stjórn fagdeildar og samþykkt í mars 2012

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála